Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Sara Björk Íþróttamaður ársins 2020

29.12.2020

Sara Björk Gunnarsdóttir knattspyrnukona var útnefnd Íþróttamaður ársins 2020 af Samtökum íþróttafréttamanna í beinni útsendingu RÚV í kvöld. Þetta er í annað sinn sem Sara Björk hlýtur titilinn en hún var einnig kjörin Íþróttamaður ársins árið 2018. Sara Björk hlaut fullt hús stiga í kjörinu.

Sara fór frá Wolfsburg til franska stórliðsins Lyon á árinu og átti þátt í að koma báðum liðum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hún vann tvöfalt með Wolfsburg og varð síðan fyrsta íslenska konan til að vinna Meistaradeild Evrópu. Sara skoraði þriðja mark Lyon í úrslitaleiknum gegn sínu gamla félagi, Wolfsburg. Sara varð einnig franskur bikarmeistari með Lyon og vann því fjóra stóra titla á árinu. Sara Björk er fyrirliði íslenska landsliðsins sem tryggði sér sæti á EM 2022 á árinu, en hún lék 10 landsleiki á árinu og skoraði í þeim tvö mörk. Sara Björk bætti landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur og er hún nú búin að leika 136 leiki fyrir Íslands hönd.

ÍSÍ óskar Söru Björk innilega til hamingju með titilinn.

Samtök íþróttafréttamanna kusu einnig íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sem Lið ársins 2020 og Elísabetu Gunnarsdóttur, þjálfara sænska knattspyrnuliðsins Kristianstad, sem Þjálfara ársins 2020.