Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
15

Sigurgeir Guðmannsson Heiðursfélagi ÍSÍ látinn

04.01.2021

 

Sigurgeir Guðmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) og Heiðursfélagi ÍSÍ, lést á Vífilsstöðum miðvikudaginn 30. desember sl., 93 ára að aldri. Sigurgeir var framkvæmdastjóri ÍBR í 42 ár, frá árinu 1954-1996 og eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri hélt hann áfram að sinna verkefnum fyrir bandalagið þar til nú allra síðustu árin þegar líkamlegri heilsu hans hafði hrakað. Sigurgeir var jafnframt fyrsti framkvæmdastjóri Laugardalshallarinnar árin 1965-1969 og framkvæmdastjóri Íslenskra getrauna í 15 ár, árin 1969-1984. Sigurgeir lék knattspyrnu með yngri flokkum Knattspyrnufélags Reykjavíkur (KR) og árið 1951 sneri hann sér að þjálfun yngri flokka félagsins og var virkur þjálfari í áratugi. Hann þjálfaði einnig meistaraflokk KR, sem vann til allra verðlauna sem í boði voru í hans þjálfaratíð, þar á meðal Íslands- og bikarmeistaratitil árið 1963.

Sigurgeir var leiðtogi í íþróttastarfi allt sitt líf, ekki bara sem starfsmaður heldur einnig sem stjórnarmaður, formaður deilda og fararstjóri, svo eitthvað sé nefnt. Hann var sæmdur mörgum heiðursviðurkenningum á vegum ýmissa eininga í íþróttahreyfingunni og var, árið 2004, sæmdur æðstu heiðursviðurkenningu innan vébanda ÍSÍ þegar hann var kjörinn Heiðursfélagi ÍSÍ af 67. Íþróttaþingi ÍSÍ. Sigurgeir tók virkan þátt í verkefnum ÍSÍ, sem Heiðursfélagi sambandsins, og sýndi starfi þess mikinn áhuga alla tíð.

Sigurgeir var nánast daglegur gestur á skrifstofu ÍSÍ um langt árabil og gaf sér oft tíma til að spjalla við starfsfólkið um íþróttatengd málefni sem og um helstu umræðuefnin í þjóðfélaginu hverju sinni. Hann var í essinu sínu í umræðum um ættir fólks, íþróttaviðburði fortíðarinnar eða sögur af kúnstugum atvikum því ekki vantaði upp á kímnina. Hann var snöggur í tilsvörum og oft var viðmælandinn skilinn eftir í óvissu um það hvort að um hafi verið að ræða skens, grín eða alvöru. Það náðu ekki allir alltaf að vera í takt við snögga og frjóa hugsun Sigurgeirs og fáir voru nógu fljótir til svars og sumir hreinlega reknir á gat. Sigurgeir var hafsjór af fróðleik, eldklár og með eindæmum minnugur. Hann vílaði ekki fyrir sér að læra nýtt tungumál á fullorðinsaldri ef þannig bar undir og áhugi hans á öllu og öllu virtist endalaus.

Það er mikill sjónarsviptir að Sigurgeiri og hans verður sárt saknað.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ sendir aðstandendum Sigurgeirs dýpstu samúðarkveðjur.