Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
13

Mestu skiptir að fá fólk til að vera með

24.02.2021

Síðasti dagur vinnustaðakeppni Lífshlaupsins var í gær. Hægt er að skrá alla hreyfingu fram að hádegi á morgun, fimmtudaginn 25. febrúar, og það á við um bæði skóla og vinnustaði.

Starfsfólk Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ vill þakka öllum þátttakendum fyrir keppnina í ár, en metþátttaka var í Lífshlaupinu 2021. Einn Lífshlaupari hefur verið sérstaklega virkur í verkefnum sviðsins undanfarin ár, en það er hún Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, umsjónakennari í 7. bekk í Húsaskóla, ofurhlaupari, landsliðskona og þriggja barna móðir. Almenningsíþróttasvið ÍSÍ fékk fyrir skömmu símtal frá foreldra í Húsaskóla sem hringdi sérstaklega til að hrósa Ragnheiði fyrir að vera hvetjandi fyrir börnin og fá þau til að hreyfa sig meira. Þessi móðir á dóttur í 7. bekk í Húsaskóla sem hefur verið mjög dugleg að fara í sund alla morgna fyrir skóla til að hreyfa sig eftir að hafa fengið hvatningu frá Ragnheiði í tengslum við Lífshlaupið.

Starfsmaður ÍSÍ hitti Ragnheiði á skólalóð Húsaskóla fyrir helgi og spurði hana spjörunum úr. Ragnheiður hefur sjálf náð einstaklega góðum árangri í utanvegahlaupum og hefur nýlega verið valin í landslið Íslands sem keppir á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum sem fer fram í nóvember á þessu ári.

Ásamt því að vera glæsileg afrekskona sjálf virðist hún vera einstaklega fær í að hvetja aðra til þess að hreyfa sig meira. Þegar Ragnheiður var spurð út í það hvernig hún fer að því að hvetja krakkana í Húsaskóla til að vera svona virkir tók hún sérstaklega fram að kennarar skólans eru allir að hjálpast að og hrósar hún skólanum fyrir að standa vel að öllu sem kemur að því að efla og auka hreyfingu hjá börnunum. Í skólanum er sérstakt heilsuteymi sem samanstendur af Ragnheiði, íþróttakennaranum David og Lilju Dögg kennara í fyrsta bekk, en þau hafa það hlutverk að halda utan um verkefni eins og Lífshlaupið.

Eitt af markmiðum Lífshlaupsins er að vinnustaðir og skólar nái að efla starfsandann með því að taka þátt saman í þessu verkefni og greinilegt að það er að takast hjá Húsaskóla. Í viðtalinu kom Ragnheiður inn á það að sem hluti af því að auka hreyfingu hjá nemendum er boðið upp á val á miðstigi. Börnin hafa val um ýmsa skemmtilega tíma eins og útiveru, hjól, hlaup og styrk o.fl. og hefur þetta verið gríðarlega vinsælt meðal nemenda. Ragnheiður tók það sérstaklega fram í lok viðtals að þó hún sé með mikið keppnisskap sjálf reynir hún að beina því gagnvart réttu keppnunum og í flestum keppnum skiptir mestu máli að fá fólk til að vera með.

ÍSÍ þakkar Ragnheiði bæði kærlega fyrir að hafa gefið sér tíma í viðtal og fyrir að vera drifkraftur í samfélaginu þegar kemur að því að efla hreyfingu.

Myndir með frétt