Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Verulegar tilslakanir á íþróttastarfi á ný!

14.04.2021

Heilbrigðisráðherra hefur nú gefið út nýja reglugerð sem tekur gildi 15. apríl og gildir til 5. maí nk.
Með henni eru gerðar verulegar tilslakanir á íþróttastarfi á ný og verður aftur opnað fyrir starfsemi sundstaða og líkamsræktarstöðva, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  
Helstu breytingar í reglugerð heilbrigðisráðherra sem snerta íþróttastarfið eru eftirfarandi:

• Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna verða heimilar og hámarksfjöldi þátttakenda miðast við 50 manns í rými. Heimilt verður að hafa allt að 100 áhorfendur á íþróttaviðburðum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem lúta að skráningu, eins meters nándarmörkum á milli ótengdra aðila og grímuskyldu. Einungis er heimilt að hafa tvö sótthólf fyrir að hámarki 100 áhorfendur í hvoru hólfi, á íþróttaviðburðum.

• Sund- og baðstaðir mega opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. Börn fædd 2015 eða síðar telja ekki með í hámarksfjölda.

• Líkamsræktarstöðvar mega opna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. um sótthreinsun, skráningu í tíma, hólfun og 20 manna hámarksfjölda.

• Skíðasvæði mega opna fyrir 50% af hámarksfjölda gesta en þar verður að gæta að tveggja metra lágmarksfjarlægð og nota grímur sé ekki hægt að tryggja hana.

• Opinberir staðir mega taka á móti gestum, en hámarksfjöldi í rými er 20. Gæta þarf að tveggja metra lágmarksfjarlægð og nota grímur sé ekki hægt að tryggja hana.

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ: „Íþróttahreyfingunni er mjög létt við þessar tilslakanir enda öllum mikið í mun að koma íþróttastarfinu aftur af stað af fullum krafti. Það var afar erfitt að fá þetta bakslag í starfið þegar allt var komið á fullt eftir erfiðan fyrri part veturs en nú erum við vonandi komin fyrir vind. Maður leyfir sér að vera bjartsýnn á framhaldið þó að kórónuveiran sé ólíkindatól. Það hefur verið unnið baki brotnu undanfarnar vikur að úrlausnum, af hálfu yfirvalda og forystu íþróttahreyfingarinnar og við erum afskaplega ánægð með að fá þessar tilslakanir varðandi íþróttirnar. Við erum þakklát mennta- og menningarmálaráðherra fyrir aðkomu hennar að þessum lausnum og samstarfið við hreyfinguna. Það er ekki nema vika í sumardaginn fyrsta og varla hægt að hugsa sé betri sumargjöf en að hefja aftur æfingar og keppni í íþróttum í landinu.“ 

Sjá frétt á vef heilbrigðisráðuneytis.

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra, sem gildir til 5. maí 2021.