Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Framtíðin björt fyrir blak og strandblak

08.06.2021

49. ársþing Blaksambands Íslands (BLÍ) var haldið 5. júní og var vel sótt af fulltrúum félaganna og íþróttahéraða. Ekkert mótframboð var á móti sitjandi formanni, Grétari Eggertssyni, og var hann því kjörinn með lófaklappi. Inn í stjórn BLÍ komu Steinn Einarsson og Valgeir Bergmann Magnússon. Þrjár konur voru kosnar inn sem varamenn í stjórn BLÍ, þær Ásta Sigrún Gylfadóttir, Fríða Sigurðardóttir og Hildur Mósesdóttir. Árni Jón Eggertsson hætti í stjórn sambandsins eftir 7 ár sem gjaldkeri. Í þinglok var honum þakkað fyrir vel unnin störf í þágu hreyfingarinnar og honum afhentur blómvöndur. Svandís Þorsteinsdóttir hætti einnig í stjórn BLÍ og var þakkað sérstaklega fyrir sitt framlag en hún var því miður ekki viðstödd.

Fyrir þinginu lágu tillögur um viðbætur í lög BLÍ vegna aga- og úrskurðarnefndar og dómstóls BLÍ. Laganefnd þingsins tók fyrir breytingartillögur um lög BLÍ sem voru samþykktar og staðfestar á ársþinginu. Er því komin aga- og úrskurðarnefnd inn í starfsemi BLÍ ásamt áfrýjunardómstól sem er æðsta dómstig innan sambandsins. Nánari upplýsingar um um samþykktar tillögur á þinginu verða aðgengilegar á heimasíðu BLÍ þegar búið verður að vinna úr gögnum þingsins.

Þremur einstaklingum var veitt heiðursmerki BLÍ úr silfri, fyrir óeigingjarnt starf í þágu blakíþróttarinnar á Íslandi, enda hafa þau verið starfandi í sínum félögum svo árum skiptir. Það voru þau Arnar Már Sigurðsson, Knattspyrnufélagi Akureyrar (KA), Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, Íþróttafélaginu Þrótti á Neskaupstað og Sigurður Jón Hreinsson, Íþróttafélaginu Vestra.

Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ flutti ávarp á ársþinginu. Í máli hans kom fram hvatning til blakhreyfingarinnar að standa vörð um fyrirtæki hreyfingarinnar, Íslenska getspá og von um bjartari tíma án heimsfaraldurs í framtíðinni.Guðmundur Helgi Þorsteinsson flutti ávarp um stöðu verkefnisins „BIG4 Good Governance in Volleyball Federations”. Burkhard Disch fjallaði um sitt starf hjá sambandinu en hann hefur verið á landinu síðustu fjórar vikurnar í vinnu við að heimsækja félögin. Honum líst vel á framtíð blaks á Íslandi og bindur vonir við að skólamót BLÍ í haust verði árangursríkt og fjölgi iðkendum í íþróttinni. Alls eru 12 blakviðburðir skipulagðir í október um allt land.Grétar Eggertsson formaður sleit þingi og þakkaði traustið sem honum er sýnt í embætti formanns BLÍ. Hann sagðist telja framtíðina bjarta fyrir blak og strandblak á Íslandi.

Myndir með frétt