Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Líney Rut endurkjörin í stjórn EOC til næstu fjögurra ára

10.06.2021

Aðalfundur Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) stendur nú yfir í Aþenu í Grikklandi. Rétt í þessu var kosningum að ljúka, í stjórn EOC og í embætti stjórnar.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem setið hefur í stjórn samtakanna síðan árið 2017, fyrst allra Íslendinga, var endurkjörin í stjórn samtakanna til næstu fjögurra ára.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ:

„Það er mikill heiður að njóta áframhaldandi stuðnings til setu í stjórn EOC. Síðustu ár hafa verið lærdómsrík og margar áskoranir hafa fylgt verkefnum samtakanna, ekki síst vegna heimsfaraldurs. Það er afar ánægjulegt að sjá fjölgun kvenna í stjórninni og er það í takt við breyttar áherslur innan EOC og Ólympíuhreyfingarinnar“.

Spyros Capralos frá Grikklandi var kjörinn forseti EOC með 34 atkvæðum gegn 16 atkvæðum sem Niels Nygaard frá Danmörku hlaut en Niels hefur gegnt embætti starfandi forseta samtakanna frá því að Janez Kocijancic lést á miðju síðasta ári. 

Lögum EOC var breytt á síðasta ári þannig að nú er tryggt að a.m.k fimm einstaklingar af hvoru kyni sitja hverju sinni sem meðstjórnendur í stjórn samtakanna. Að þessu sinni voru átta konur í framboði og hlutu sex kosningu sem meðstjórnendur, auk þess sem varaforseti EOC er kona.

Eftirtaldir aðilar skipa stjórn EOC 2021 - 2025. 

Spyros Capralos (GRE), forseti
Daina Gudzineviciute (LTU), varaforseti
Peter Mennel (AUT), gjaldkeri
Raffaele Pagnozzi (ITA), framkvæmdastjóri
Zlatko Matesa (CRO) 
Jean-Michel Brun (FRA) 
Uschi Schmitz (GER) 
Annamarie Phelps (GBR) 
Líney Rut Halldórsdóttir (ISL) 
Berit Kjoll (NOR) 
José Manuel Araújo (POR) 
Cristina Vasilianov (MDA) 
Mihai Covaliu (ROU) 
Djordje Visacki (SRB) 
Victoria Cabezas (ESP)
Hasan Arat (TUR)

Myndir með frétt