Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Staðfestir keppendur á ÓL í Tókýó

05.07.2021

Í dag, mánudaginn 5. júlí, er lokadagur fyrir skráningar þátttakenda á Ólympíuleikana í Tókýó. Framkvæmdastjórn ÍSÍ fundaði síðastliðinn föstudag og staðfesti val á þátttakendum, en endurúthlutun á kvótasætum alþjóðasérsambanda  var enn í gangi um helgina og því voru möguleikar á breytingum fram til dagsins í dag.
Ísland mun eiga fjóra keppendur á Ólympíuleikunum í Tókýó. Þau eru:

  • Anton Sveinn Mckee, sem keppir í 200m bringusundi,
  • Ásgeir Sigurgeirsson, sem keppir í loftskammbyssu,
  • Guðni Valur Guðnason, sem keppir í kringlukasti,
  • Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sem keppir í 100m og 200m skriðsundi.

Ásamt þeim eru í íslenska hópnum eftirfarandi aðilar:

  • Andri Stefánsson, aðalfararstjóri
  • Örvar Ólafsson, aðstoðarfararstjóri og umsjónarmaður æfingabúða í Japan
  • Örnólfur Valdimarsson, læknir
  • Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur
  • Pétur Einar Jónsson, sjúkraþjálfari
  • Róbert Magnússon, sjúkraþjálfari
  • Eyleifur Jóhannesson, flokksstjóri/þjálfari – sund
  • Albert Subirats Altes, þjálfari – sund
  • Pétur Guðmundsson, þjálfari – frjálsíþróttir

Ásgeir Sigurgeirsson mun njóta aðstoðar tveggja þjálfara sem eru á leikunum á vegum Finna og Eista.

Nánari upplýsingar um íslensku keppendurna og keppnisdagskrá íslenska hópsins er að finna með því að smella hér.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, munu verða viðstödd setningarhátíð leikanna og fyrstu keppnisdagana auk þess sem að Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, mun heimsækja síðari hluta leikanna. Setningarhátíð leikanna fer fram föstudaginn 23. júlí nk. og leikunum verður slitið sunnudaginn 8. ágúst.

Andri Stefánsson, aðalfararstjóri ÍSÍ á leikunum:

„Ísland á að þessu sinni fjóra keppendur á leikunum. Ég er ekki í vafa um að þau muni standa sig vel. Í hópnum er mikil reynsla og það skiptir máli þegar komið er á einn stærsta íþróttaviðburð í heimi. Það er orðið erfiðara en áður að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikana þar sem alþjóðasamböndin hafa sum hver breytt reglunum frá fyrri árum og eins er samkeppnin orðin meiri á heimsvísu. Leikarnir verða ólíkir fyrri leikum, þar sem mikil áhersla er lögð á sóttvarnir og er aðgengi þátttakenda bundin mörgum takmörkunum. Undirbúningurinn fyrir þessa leika hefur verið erfiðari en í aðdraganda fyrri leika en nú skiptir öllu máli að íþróttafólkið geti einbeitt sér að lokaundirbúningi sínum og nái þeim árangri sem þau stefna að.“

Á undan leikunum mun íslenski hópurinn, eða hluti hans, dvelja í æfingabúðum í Tama City Tokyo, sem er sveitarfélag staðsett í útjaðri borgarinnar. Undirbúningur vegna þessa hófst strax á árinu 2019 og hafa mikil samskipti verið í gangi síðan þá sem snúa ekki eingöngu að íslenska keppnishópnum fyrir leikana í sumar heldur einnig ýmsum þáttum að leikum loknum.

Eins og á leikunum í Ríó 2016 mun íslenski hópurinn klæðast fatnaði frá kínverska íþróttavöruframleiðandanum Peak Sports, en fyrirtækið hefur verið öflugur stuðningsaðili ÍSÍ og þeirra keppnishópa sem farið hafa á Ólympíska leika á undanförnum árum.

Myndir með frétt