Hádegisverðarfundur með sendiherra Japans á Íslandi
Sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki, bauð fulltrúum ÍSÍ til hádegisverðar og fundar í dag til að ræða þátttöku ÍSÍ í Ólympíuleikunum í Tókýó sem hefjast 23. júlí nk. Með sendiherranum var Hiroyuki Nomura, starfsmaður sendiráðsins.
Lárus L. Blöndal forseti, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri, Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri ÍSÍ funduðu yfir hádegisverði með Ryotaro og Hiroyuki, í bústað sendiherrans, og að því loknu þá færðu Lárus og Líney Rut þeim gjafir tengdar þátttöku Íslands í Ólympíuleikunum í Tókýó. ÍSÍ hefur átt góð samskipti við bæði fyrrverandi og núverandi sendiherra Japans hér á landi við undirbúning fyrir leikana.
Það styttist í brottför Andra Stefánssonar aðalfararstjóra en hann fer til Tókýó í vikunni til að undirbúa aðstöðu og vistarverur íslensku þátttakendanna í Ólympíuþorpinu og tryggja að allt sé klárt þegar hópurinn kemur til Tókýó. Að ýmsu er að hyggja svo að vel fari um íslenska hópinn á meðan á dvöl þeirra stendur. Sendiráð Íslands í Japan aðstoðar Andra við undirbúning komu íslensku þátttakendanna og föruneytis.
Það hefur reynst ÍSÍ dýrmætt í gegnum tíðina að geta leitað til sendiráða, bæði hér heima og í viðkomandi landi, í aðdraganda Ólympíuleika.
Á myndinni eru Lárus og Líney Rut með Ryotaro, sendiherra Japans.