Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Viðburðarík helgi á Paralympics í Tókýó

30.08.2021

Frjálsíþróttir

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir frá FH stórbætti Íslandsmetið sitt í kúluvarpi F37 á Paralympics á Ólympíuleikvanginum í Tókýo þegar hún kastaði 9,57 m. Fyrra met hennar í greinnni var 9.10 m sem hún setti á Íslandsmóti ÍF fyrr í sumar. Metið kom í fyrsta kasti Bergrúnar, sjötta og seinasta kastið var svo 9,01 m sem skilaði henni sjöunda sætinu. Bergrún Ósk tók því næst þátt í langstökkskeppni T37 kvenna. Þar hafnaði hún í 8. sæti, en hennar lengsta stökk þar var 4,04. Þar með lauk Bergrún Ósk keppni á sínum fyrstu Paralympics.

Patrekur Andrés Axelsson setti nýtt Íslandsmet í undanrásum í 400m hlaupi T11 (blindir), hann hljóp á 56,73 sek. og varð sjöundi eftir undanrásirnar. Ríkjandi Íslandsmet Patreks var 56,95 sek.

Ísland hefur þá lokið þátttöku sinni í frjálsíþróttum í Tókýó, glæsilegar bætingar hjá þeim Bergrúnu Ósk og Patreki Andrési.

Sund

Thelma Björg Björnsdóttir varð áttunda inn í úrslit í 100m bringusundi SB5 þegar hún synti á tímanum 1:54.02 mín. en Íslandsmet hennar í greininni er 1,52,79 mín. Thelma lauk keppni í úrslitunum í 100 m bringusundi á tímanum 1:54,88 mín. sem skilaði henni áttunda sæti. Hún á núna eina grein eftir í Tókýó og það er í 400 m skriðsundi í flokki S6, 2. september.

Róbert Ísak Jónsson keppti í 100 m bringusundi SB14, hann synti á 1:10,12 sek. sem er tveimur hundraðshlutum úr sekúndu frá Íslandsmetinu. Hann varð fimmti af sex í sínum riðli. Flugsundið var hans aðalgrein í Tókýó og hefur hann því ekki lagt eins mikla áherslu á aðrar greinar. Róbert keppir næst í 200 metra fjórsundi á þriðjudaginn

Már Gunnarsson tryggði sér sæti í úrslitum í 100 m baksundi S11, hann var með þriðja besta tímans eða 1:10,43 mín. Í úrslitasundinu settin hann nýtt glæsilegt Íslandsmet þegar hann kom í bakkann á 1:10,36 mín. Þetta skilaði honum fimmta sæti, en úrslitasundið var hnífjafnt og ansi spennandi. Í morgun synti Már svo í 200 m fjórsundi blindra og endaði í áttunda sæti í greininni. Hann synti á 2:37,43 mín. sem er tæpri sekúndu frá hans eigin Íslandsmeti. Már er búinn að ljúka keppni í þremur af fjórum greinum á mótinu. Á föstudaginn keppir hann í undanrásum í 100m flugsundi S11.   

Myndir með frétt