Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
11

ÍSÍ 110 ára í dag

28.01.2022

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er 110 ára í dag, 28. janúar.

Sambandið, sem þá hét Íþróttasamband Íslands, var stofnað þann dag í Bárubúð árið 1912. Alls mættu 25 fulltrúar frá sjö félögum á stofnfund sambandsins en það voru fulltrúar frá Reykjavíkurfélögunum Glímufélaginu Ármanni, Íþróttafélaginu Kára, Íþróttafélagi Reykjavíkur, Knattspyrnufélaginu Fram, Knattspyrnufélagi Reykjavíkur, Umf. Reykjavíkur og Umf. Iðunni. Að auki var á fundinum lögð fram ósk frá fimm félögum til viðbótar um að gerast stofnfélagar sambandsins. Það voru félögin Skautafélag Reykjavíkur, Sundfélagið Grettir og Akureyrarfélögin Íþróttafélagið Grettir, Glímufélagið Héðinn og Umf. Akureyrar. Axel Tulinius var kjörinn fyrsti forseti sambandsins. 

Í tilefni dagsins er vert að rifja upp að á 100 ára afmæli sambandsins árið 2012 var Heiðurshöll ÍSÍ sett á laggirnar. Vilhjálmur Einarsson frjálsíþróttakappi var fyrsti einstaklingurinn sem var útnefndur í höllina og var það gert í afmælisveislu sambandsins sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá aldarafmælinu þá hafa alls 23 einstaklingar verið útnefndir í höllina.  Á afmælisárinu var einnig gefið út veglegt afmælisrit, ÍSÍ - Saga og samfélag í 100 ár, sem hefur að geyma í senn sögu sambandsins og merka atburði í íslensku íþróttalífi.

Afmælisdagur sambandsins að þessu sinni er litaður af þeim aðstæðum sem uppi eru á tímum kórónuveirufaraldurs en vonandi erum við farin að sjá ljósið í gangnaendanum hvað það varðar.

ÍSÍ horfir björtum augum til framtíðarinnar því hún er uppfull af tækifærum fyrir íþróttahreyfinguna til að eflast og dafna enn betur. 

Til hamingju með daginn öll!