Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Nýr formaður hjá HSÞ

14.03.2022

 

14. ársþing Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) fór fram laugardaginn 12. mars. sl. í félagsheimilinu Sólvangi á Tjörnesi.

Ítarleg ársskýrsla lá fyrir þinginu þar sem má finna upplýsingar um starfsemi aðildarfélaga og héraðssambandsins, en rekstur héraðssambandsins gekk vel á liðnu ári. Á þinginu fór fram málefnavinna er laut að stöðu íþróttahéraðsins og framtíð íþróttahreyfingarinnar á svæðinu, en þingfulltrúar ræddu um ýmsar áskoranir og spurningar undir leiðsögn framkvæmdastjóra HSÞ, Gunnhildar Hinriksdóttur.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjórn ÍSÍ, ávarpaði þingið og flutti kveðjur frá ÍSÍ auk þess að taka þátt í málefnavinnunni með erindi og vangaveltur um tækifæri og þarfir íþróttahreyfingarinnar í framtíðinni.

Ragnar Emilsson frá Golfklúbbi Húsavíkur var sæmdur Silfurmerki ÍSÍ, en hann hefur verið félagi í Golfklúbbi Húsavíkur nær óslitið í 30 ár. Ragnar hefur gengt hinum ýmsu ábyrgðarstörfum innan klúbbsins, setið í stjórn, verið formaður mótanefndar og vallarnefndar til langs tíma. Ragnar hefur sýnt mikið frumkvæði í endurbótum á vellinum og lagt hönd á plóg í framkvæmdum við hann. Ragnar var einn aðal hvatamaður við uppsetningu golfhermis sem klúbburinn rekur núna.

Jónas Egilsson lét af störfum sem formaður HSÞ, en hann hefur gegnt því embætti síðustu fjögur árin. Jónas var sæmdur starfsmerki UMFÍ á þinginu en hann var sæmdur Gullmerki ÍSÍ árið 2006 á ársþingi FRÍ vegna starfa í þágu frjálsíþrótta í landinu.  Nýr formaður var kjörinn Jón Sverrir Sigtryggsson.

HSÞ veitti ýmsar viðurkenningar á þinginu, svo sem til íþróttafólks HSÞ og einnig heiðursviðurkenningar. Hægt verður að lesa nánar um þær afhendingar á heimasíðu HSÞ á næstu dögum.

Myndir með frétt