Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

9

Samhugur á þingi FRÍ

29.03.2022

 

Ársþing Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) fór fram á Selfossi um síðastliðna helgi. Mikill samhugur er í frjálsíþróttahreyfingunni um að koma sterk undan kórónuveirufaraldrinum og horfa fram á veginn. Mörg mál voru reifuð á þinginu er lúta að framtíðarþróun frjálsíþrótta, svo sem keppnisfyrirkomulag unglinga, tækniframfarir í umhverfi FRÍ, eflingu frjálsíþrótta fyrir eldri aldurshópa, stuðning við leiðtoga í hreyfingunni og aðgengi fatlaðra.

Freyr Ólafsson var endurkjörinn formaður FRÍ til næstu tveggja ára. Þrír einstaklingar voru kjörnir nýir inn í stjórn og tveir nýir  í varastjórn. Stjórn hefur skipt með sér verkum og skipast svo í embætti stjórnar:  Aðalbjörg Hafsteinsdóttir varaformaður, Auður Árnadóttir gjaldkeri, Bergþóra Guðjónsdóttir ritari og Jóhann Haukur meðstjórnandi.

Í varastjórn sitja Björgvin Víkingsson, Eiríkur Mörk Valsson, Hjördís Ólafsdóttir, Kári Steinn Karlsson og Rannveig Oddsdóttir.

Á þinginu voru veittar ýmsar viðurkenningar til einstaklinga og má lesa nánar um það í frétt um þingið á heimasíðu sambandsins. Þar er einnig að finna slóð á skýrslu stjórnar og myndir frá þinginu.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ og ávarpaði við þingsetningu.

Mynd/FRÍ.