Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
6

Hjólað í vinnuna formlega ræst af stað

04.05.2022

 

Hjólað í vinnuna var sett með hátíðlegum hætti í morgun og á dagskrá voru hressileg hvatningarávörp góðra gesta. 

Andri Stefánsson, framkvæmdarstjóri ÍSÍ bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá verkefninu og þróun þess. Að því loknu tóku Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu og Ingvar Ómarsson, hjólreiðakappi til máls. Öll voru þau sammála um mikilvægi verkefnisins og hvöttu þau öll landsmenn til að velja þennan umhverfisvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta. 

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra talaði um að Hjólað í vinnuna væri eitt það markverðasta og mikilvægasta lýðheilsuverkefi sem sett hafi verið af stað á undanförnum áratugum. Átakið sameinar allt það besta sem skilgreinir lýðheilsu, því það að skipta yfir í virkan ferðamáta er auðvitað gott fyrir loftslagið og bætir líkamlega og andlega heilsu þeirra sem taka þátt og þar með lýðheilsu þjóðarinnar. En auk þess er gaman að fylgjast með þessari heilbrigðu keppni sem í þessu felst og gaman að sjá hvað hún eflir starfsandann á vinnustöðum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri talaði um hvað það væri magnað að líta til baka og rýna í þessi tuttugu ár sem verkefnið hefði staðið yfir. Sá ferðamáti sem hefur vaxið hvað mest eða úr 0% um það leiti sem Hjólað í vinnuna hófst í það að vera 7% ferða sem farnar eru til og frá vinnu nú tuttugu árum síðar. Óvísindaleg könnun sýnir að það eru alltaf fleiri og fleiri að velja hjólreiðar sem samgöngumáta til og frá vinnu. Rafhjólin hafa gert fleirum kleift að nýta hjólið sem ferðamáta. Dagur benti á að á vef borgarvefsjár Reykjavíkurborgar er hægt að finna bæði bestu hjólaleiðina og öruggustu leiðina. Og vonandi styttist í það að þetta komist jafnfram inn á Google.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar nefndi að Hjólað í vinnuna væri eitt alskemmtilegasta almenningsíþróttaátak sem hún hefur tekið þátt í. Sérstaklega ánægjulegt fannst Sigrúnu að fá að setja átakið daginn eftir Loftslagsdaginn. En það er vissulega partur af orkuskiptunum að nota hjólið og það minnkar einnig svifryk. Sigrún ljóstraði því upp að það hleypur oft svolítið kapp í mannskapinn hjá Umhverfisstofnun í þessu átaki en það er auðvitað bara skemmtilegt.

Jón Gunnar Jónsson forstjóri Samgöngustofu sagði frá því að hann hafi tekið þátt í átakinu í allmörg ár og haft mjög gaman af. Hann benti á að Hjólað í vinnuna væri sannkallaður vorboði en nauðsynlegt væri að vera vel búinn og að huga að örygginu, vera með hjálm og hafa hjólið í lagi. Hann benti á að hjólandi og gangandi þurfa að bera virðingu fyrir hvort öðru, sýna aðgát og tillitssemi.

Ingvar Ómarsson hjólreiðakappi sagði sögu sína frá því að hjóla til og frá vinnu yfir í það að hafa atvinnu af því að hjóla í dag. Hjólreiðar eru ekki bara keppnisíþrótt heldur einnig samgöngumáti. Hjólreiðar er mjög fjölbreytt íþrótt sem flest allir geta stundað.

Gestir setningarhátíðarinnar hjóluðu síðan verkefnið formlega af stað.

Fleiri myndir frá viðburðinum er að finna á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt