Sendinefnd frá Eistlandi í fræðsluferð á Íslandi
Dagana 3. og 4. maí sl. var 16 manna hópur frá ýmsum samtökum tengdum íþróttahreyfingunni í Eistlandi staddur hér á landi til að skoða og kynna sér umhverfi, skipulag og starfsemi íþrótta á Íslandi. Þróunar- og fræðslusvið ÍSÍ skipulagði dagskrá fyrir hópinn undir stjórn Þórarins Alvars Þórarinssonar verkefnastjóra.
Fyrri daginn heimsótti hópurinn íþróttamannvirki í Laugardalnum voru skoðuð og kynntu sér þá starfsemi sem þar fer fram. Höfuðstöðvar ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal voru einnig heimsóttar og hlýddi hópurinn á kynningu um sögu ÍSÍ ásamt kynningu um verkefnið „Bjartur lífsstíll”, heilsueflingu eldra fólks.
Seinni daginn tók hópurinn þátt í setningarhátíð verkefnisins Hjólað í vinnuna sem fór fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Eftir það var farið í Egilshöll þar sem Málfríður Sigurhansdóttir verkefnastjóri þróunar- og fræðslusviðs Umf. Fjölnis tók á móti hópnum og leiddi skoðunarferð um mannvirkið ásamt því að fara yfir alla þá fjölbreyttu starfsemi sem fer fram hjá félaginu. Að lokum hlýddi hópurinn á nokkur erindi í höfuðstöðvum ÍSÍ þar sem Markús Máni M. Maute framkvæmdastjóri Sportabler fór yfir þeirra starfsemi og Þórdís Lilja Gísladóttir dósent frá Háskóla Íslands flutti fyrirlestur um hlutverk HÍ varðandi íþróttir og heilsueflingu, rannsóknavinnu og margt fleira. Þá sagði Gígja Gunnarsdóttir frá Embætti landlæknis frá verkefninu Heilsueflandi samfélag og Ragnheiður Sigurðardóttir Landsfulltrúi Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) fræddi hópinn um hlutverk samtakanna og helstu verkefni þeirra.
Sendinefndinni fannst afar áhugaverð víðtæk þátttaka landsmanna í íþróttum og hversu fagleg umgjörð íþróttahreyfingarinnar er hér á landi. Nefndinni fannst m.a. afar áhugavert að sjá tölfræði hreyfingarinnar, sem unnin er upp úr félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ. Góðar umræður urðu um verkefni ÍSÍ, starfsemi íþróttahreyfingarinnar, tækifæri og áskoranir sem hún stendur frammi fyrir.