„Börnum í íþróttum líður betur, þau sofa meira, eru hamingjusamari og gengur betur í námi" sagði Margrét Lilja Guðmundsdóttir
Málþing á vegum ÍSÍ og UMFÍ var haldið á dögunum á Hilton Nordica með yfirskriftinni „Vertu með! Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi“. Á dagskránni voru áhugaverð og gagnleg erindi.
„Mikilvægt er að efla þátttöku barna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi, enda ljóst að skipulagt starf er mikilvæg félagsleg og heilbrigðisleg forvörn" sagði Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra meðal annars þegar hann opnaði málþingið. Ásmundur fagnaði þessu framtaki íþróttahreyfingarinnar.
Margét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningum og kennari við íþróttadeild Háskólans í Reykjavík, fór yfir niðurstöður rannsóknanna „Ungt fólk“ sem lagðar eru fyrir grunnskólabörn einu sinni á ári. „Ekkert land í heiminum safnar og notar svona gögn,“ sagði Margrét og lagði áherslu á að íslenska forvarnarmódelið sé heimsfrægt og innleiðing á því sé að eiga sér stað víða um heim. Í fyrirlestrinum kom fram að helstu áhættuþættir í tengslum við vímuefnaneyslu barna og ungmenna sé jafningjahópurinn og óskipulagðar athafnir. Verndandi þættir væru skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og stuðningur foreldra. Sjötíu og fimm prósent af vökutíma barna á Íslandi, væri frítími og þar af leiðandi mikilvægt að börn sæki skipulagða starfsemi í umsjón fullorðins fagaðila, og hangsi sé eytt út úr dagskránni. „Börnum í íþróttum líður betur, þau sofa meira, eru hamingjusamari og gengur betur í námi.“
Sjáanlegur munur er í dag, og hefur verið undanfarin ár, á þeim sem börnum sem koma frá heimilum þar sem eingöngu er töluð íslenska, samanborið við börn frá heimilum þar sem einungis önnur tungumál eru töluð. Þau síðarnefndu eru mun ólíklegri til að sækja skipulagt íþróttastarf. Margrét benti á að börnin séu mörg af austur-evrópskum uppruna eða frá spænskumælandi löndum, þar sem íþróttir hafi nánast ekkert forvarnargildi. „Börn af erlendum uppruna eru líklegri til að gegna frekari hlutverkum á heimili sínu en íslensku bómullarhoðrarnir okkar. Koma kannski frá menningarheimum þar sem meiri áhersla er lögð á það. Þá séu fjárhagsaðstæður líklegri til þess að hindra frístundaiðkun barna af erlendum uppruna.“
Næstur tók til máls Jóhannes Guðlaugsson, verkefnastjóri þjónustumiðstöðvar Breiðholts en hann hefur að undanförnu stýrt verkefninu „Frístundir í Breiðholti“ þar sem markmiðið er að ná fram aukinni þátttöku, félagslegri virkni og samtvinna íslenskuna inn í frístundastarfið. Jóhannes ræddi m.a. um að það væri lykilatriði í hans huga að standa vel að kynningarmálum. Bæði þurfi að ná til barna og foreldra, en einnig til annarra umsjónaraðila, svo sem kennara. Kennarar hafa aðstoðað við að koma auga á hvaða börn taka engan þátt í skipulögðu frístundastarfi. Í umræddu verkefni sinnir Jóhannes hlutverki frístundatengils. Hann veitir þannig aðstoð við skráningu, hlustar á óskir barna og ungmenna um frístundatilboð og tryggir tengingu við fólk af erlendum uppruna. „Það er ekki nóg að opna bara faðminn, við verðum að sækja þessa einstaklinga,“ sagði Jóhannes.
Svokallaðir sendiherrar Breiðholts, eru einstaklingar af erlendum uppruna sem Jóhannes hefur fengið til þess að brúa bilið milli kerfisins og innflytjenda. Einn af sendiherrunum María Sastre spænskumælandi eðlisfræðikennari í framhaldsskóla, útskýrði hlutverk sitt á málþinginu og sagði m.a. „Við erum innflytjendur sem getum talað íslensku. Við erum með gott tengslanet við aðra innflytjendur sem tala okkar móðurmál. Okkar hlutverk er að brúa bilið milli ólíkra þjóða og menningarheima í hverfinu,“ sagði hún.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ kynnti verkefnið „Allir með!“ sem er samfélagsverkefnið og er ætlað að stuðla að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu. Lagt er upp með að öll börn séu í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að allir sem starfa með börnum vinni að vellíðan þeirra með skipulögðum hætti. Í máli Hilmu kom fram að hlutfall einstaklinga af erlendum uppruna er mjög hátt í Reykjanesbæ eða um fjórðungur íbúa.
Samtal við fulltrúa fjögurra félaga sem öll fengu styrk til að vinna sérstaklega að því að fjölga börnum af erlendum uppruna í íþróttastarfi var næst á dagskrá. Þessir aðilar voru Ragnar Sverrisson frá Dansfélaginu á Bíldshöfða, Dagný Finnbjörnsdóttir frá HSV, Kristín Þórðardóttir frá Sunddeild KR og Sarah Smiley frá Skautafélagi Akureyrar. Verkefnin voru mislangt komin, en áhugavert verður að sjá niðurstöðurnar í haust þegar þróunarverkefnunum lýkur.
Síðust á mælendaskrá var Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins. Sema kynnti fjölmenningarstefnu, sem miðar að því að koma í veg fyrir mismunun í fjölmenningarsamfélagi íþróttahreyfingarinnar. Fjölmenningarstefnan inniheldur inngang, yfirlýsingu, markmið, aðgerðir til að ná markmiðum og ábyrgð. Sema segir ábyrgðarhlutann mikilvægan því ólíklegt sé að breytingar verði ef enginn ber ábyrgð á þeim.
Með innleiðingu stefnunnar skuldbindi íþróttafélögin sig til að stuðla markvisst að þessum verkefnum og inngildingu barna af erlendum uppruna. Rétt hugtakanotkun skipti einnig miklu máli. Börn af erlendum uppruna sem taki þátt í íþróttastarfsemi þurfi að upplifa að þau séu velkomin, að þau séu virkir þátttakendur, tilheyri heild og upplifi öryggi. Afstaða félaganna þurfi að vera skýr varðandi það að líða ekki fordóma eða hatursorðræðu, ryðja þarf hidrunum úr vegi og auka þannig þátttöku barna af erlendum uppruna.
Málþinginu stýrði Markús Máni Mikaelson Maute. Málþingið var vel sótt og talsverður fjöldi fylgdist einnig með í streymi. Málþingið er aðgengilegt hér