Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
13

Íþróttastarfsemi er mikilvæg fyrir lýðheilsu

21.06.2022

Ánægjuvogin sem unnin er af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er komin út. R&g hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8.-10. bekk allt frá árinu 1992 undir nafninu „Ungt fólk”. 

ÍSÍ og UMFÍ hafa fengið að setja inn í spurningalistann nokkrar spurningar til að kanna ánægju þeirra sem stunda íþróttir með íþróttafélagi, t.d. um það hversu ánægð/ánægður viðkomandi er með íþróttafélagið, þjálfarann og aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu. Einnig eru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, neyslu orkudrykkja, notkun nikótínpúða, andlega og líkamlega heilsu, sjálfsmynd og svefn. Í Ánægjuvoginni eru teknar saman niðurstöður þeirra spurninga sem tengdar eru íþróttum og íþróttaiðkun en þetta er í fjórða sinn sem Ánægjuvogin er birt.

Kynning á Ánægjuvoginni fór fram í húsakynnum UMFÍ í dag, en Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá R&g vann skýrsluna og sá um kynninguna. Niðurstöðurnar eru almennt mjög jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna þó að sannarlega séu líka áskoranir til staðar. Helstu áskoranir eru að gera íþróttastarfið aðgengilegra fyrir kynsegin ungmenni og að sinna þörfum barna af erlendum uppruna enn betur en nú er gert, en þátttaka þessara hópa í íþróttastarfi er talsvert minni en í öðrum hópum. 

Í máli Margrétar Lilju kom fram að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi er besta forvörnin á Íslandi. „Okkur hefur tekist að draga úr neyslu vímuefna hjá börnum og ungmennum og þar hafa íþróttir og allt skipulagt starf í rauninni spilað mjög stórt hlutverk” segir Margrét Lilja. Hún segir jafnframt; „Við sjáum að börn sem eru virk í skipulögðu starfi upplifa sig hamingjusamari, upplifa andlega og líkamlega heilsu sína betri og upplifa sig síður einmana og þeim líður þar af leiðandi betur. Börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru síður líkleg til að neyta vímuefna, nota nikótínpúða og orkudrykki og þau sofa betur, en börn og ungmenni sem ekki taka þátt.” 

Margrét Lilja segir að verðmæti niðurstöðu Ánægjuvogarinnar felast í því að hún staðfestir forvarnargildi og mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs.

ÍSÍ og UMFÍ hafa fengið í hendur heildarskýrslu fyrir allt landið, ásamt landshlutaskýrslum og stöðu ákveðinna þátta hjá yfir 50 íþróttafélögum. Á næstunni fer fram áframhaldandi kynning á niðurstöðum Ánægjuvogarinnar.