Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

100 ár af handknattleik á Íslandi

09.09.2022

Í ár eru liðin 100 ár frá því að íþróttin handknattleikur barst til Íslands. Handknattleikssamband Íslands hefur sett saman skemmtilegt myndband af þessu tilefni þar sem farið er yfir sögu íþróttarinnar hér á landi. Slóð á myndbandið er að finna hér neðar í fréttinni.

Fjöldi barna og ungmenna hafa prófað sig áfram í íþróttinni á þessum 100 árum, mörg frábær landslið orðið til í íþróttinni og glæstir sigrar verið unnir. Fæstir gleyma silfurverðlaunum karlalandsliðsins í handknattleik á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og einnig er HM sem fram fór hér á landi árið 1995 mörgum minnistætt, svo eitthvað sé nefnt. Ef farið er enn lengra aftur er vert að minnast sigurs íslenska kvennalandsliðsins á Norðurlandameistaramóti árið 1964, en sá sigur var sá fyrsti sem íslenskt kvennalandslið í hópíþrótt hafði unnið. Í kjölfarið hlaut Sigríður Sigurðardóttir landsliðskona í handknattleik hinn eftirsótta titil „Íþróttamaður ársins”, fyrst allra kvenna á Íslandi.

Upptalning á öllum ævintýrum handknattleiks og hetjum íþróttarinnar hér á landi er ógnarlöng en áhugasömum er bent á að sögu íþróttarinnar hefur verið gerð góð skil, t.a.m. í bók Steinars J. Lúðvíkssonar Handknattleiksbókin: Saga handknattleiksins á Íslandi 1920-2010.

ÍSÍ óskar Handknattleikssambandi Íslands og þjóðinni allri til hamingju með aldarlanga iðkun handknattleiks á Íslandi. Framtíðin er björt!

Myndband HSÍ - 100 ára afmæli handboltans á Íslandi.

Myndir með frétt