Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Samræmd viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf

04.11.2022

 

Komin er út samræmd viðbragðsáætlun, unnin í sameiningu af Bandalagi íslenskra skáta (BÍS), Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), Kristilegu félagi ungra manna og kvenna (KFUM og K), Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Æskulýðsvettvanginum (ÆV). Kynningin fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og var Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra viðstaddur, ásamt Lárusi L. Blöndal forseta ÍSÍ, Jóhanni Steinari Ingimundarsyni formanni UMFÍ, öðrum gestum og fulltrúm frá þeim samtökum sem standa að áætluninni.

Embætti samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs var sett á laggirnar árið 2020 og var þá strax farið að huga að því að samræma verkferla og viðbrögð í hreyfingunni. Sigurbjörg Sigurpálsdóttir samskiptaráðgjafi hefur leitt vinnuferlið, ásamt vinnuhópi þar sem í sátu fulltrúar frá þeim samtökum sem talin eru upp hér að ofan. Fulltrúi ÍSÍ í vinnuhópnum var Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ.

Viðbragðsáætlunin veitir íþrótta- og æskulýðsfélögum samræmdar leiðbeiningar þegar erfið og flókin mál af ýmsum toga koma upp. Markmið viðbragðsáætlunar er að færa aðilum innan íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka um allt land áætlun vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í slíku starfi. Best er að viðbrögð allra íþrótta- og æskulýðsfélaga séu eins. 

Í áætluninni er að finna verkferla sem fylgja skal þegar upp koma atvik eða áföll í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Viðbragðsáætlunin er einföld og á við í öllum tilvikum, óháð því um hvaða aðila og atvik er um að ræða. Dæmi um atvik sem að viðbragðsáætlunin nær til eru slys, veikindi, náttúruhamfarir, einelti og ofbeldi. Einnig eru þar gagnlegar upplýsingar um meðal annars ferðalög, hinseginleika og fjölmenningu og inngildingu í félagsstarfi, öryggismál og skráningu atvika.

Áætlunin nær yfir alla starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga á landinu, aðildarfélaga, þátttakendur, stjórnendur, yfirmenn, starfsfólk, sjálfboðaliða og aðra ábyrgðaraðila innan félaganna. Þó að starfsemin geti verið misjöfn á milli félaga þá er mikilvægt að öllum líði vel við leik og störf í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Allt fólk á að geta gengið að því vísu að félagsstarf þess bjóði upp á öruggt umhverfi og að fólk fái að vera óáreitt í félagsstarfinu, óháð aldri, kynferði eða stöðu að öðru leyti. Sömuleiðis á allt fólk að geta leitað réttar síns ef atvik koma upp, án þess að óttast afleiðingar. Ýmis atvik geta komið upp og mikilvægt er að geta brugðist við á sem bestan máta. Erfitt er að gera öllum mögulegum atvikum skil en mikilvægt er að hafa einhverjar grunnreglur til að fylgja. 

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ: „Það er mikil ánægja hjá ÍSÍ með útgáfu samræmdrar viðbragðsáætlunar fyrir íþróttahreyfinguna og þau samtök önnur sem hlut eiga að máli. Verkefnið reyndist flóknara og seinlegra en í upphafi var áætlað enda margir hagsmunahópar sem að þessu standa og umfjöllunarefnin mörg hver snúin. Íþróttahreyfingin hefur í mörg ár verið með viðbragðsáætlanir við óvæntum atburðum en nauðsynlegt var orðið að uppfæra og endurskoða ýmis umfjöllunarefni slíkra áætlana. Við erum þakklát fyrir þá miklu vinnu sem í hefur verið lagt við undirbúning, yfirlestur og útgáfu nýju áætlunarinnar. Við vonum að samræmd viðbragðsáætlun gagnist íþróttahreyfingunni vel þegar bregðast þarf við atvikum sem upp koma í starfinu. Án efa mun hún bæta starfið, gera það enn faglegra og vera okkur öllum til stuðnings í víðfemu starfi hreyfingarinnar.“

Viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.

Verkfærakista samskiptaráðgjafa.

Myndir með frétt