„Hvatning til að halda áfram og bæta enn frekar í“
Golfklúbbur Selfoss fékk endurnýjun viðurkenningar félagsins sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á aðalfundi félagsins í Golfskálanum við Svarfhól miðvikudaginn 7. des. síðastliðinn.
Golfklúbburinn fékk fyrst viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ árið 2013 og hefur haldið henni síðan. Það var Olga Bjarnadóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem afhenti Páli Sveinssyni formanni félagsins viðurkenninguna. Á myndunum eru þau Páll og Olga, á einni myndinni eru tveir efnilegustu kylfingar klúbbsins með þeim, þau Embla Hlynsdóttir og Heiðar Snær Bjarnason og á hópmyndinni er stjórn klúbbsins, frá vinstri Hlynur Geir Hjartarson framkvæmdastjóri, Magnús J Magnússon, Hreinn Þorkelsson, Ástríður Sigurðardóttir, Helena Guðmundsdóttir, Bjarki Már Magnússon, Leifur Viðarsson, Páll Sveinsson formaður og lengst til hægri er Olga Bjarnadóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.
„Við í Golfklúbbi Selfoss erum stolt af því að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Að hljóta þá viðurkenningu er staðfesting á því faglega og flotta starfi sem félagið hefur staðið fyrir og um leið hvatning til að halda áfram og bæta enn frekar í. Golfklúbbur Selfoss er eitt af þeim íþróttafélögum sem er í hvað örustum vexti á landinu og kunnum við svo sannarlega að meta samstarfið við ÍSÍ og þá faglegu leiðsögn sem við fáum frá ÍSÍ“, sagði Páll Sveinsson formaður Golfklúbbs Selfoss af þessu tilefni.