Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Frábær árangur á NM í sundi í 25 m laug

14.12.2022

 

Norðurlandamótið í sundi í 25m laug fór fram í Bergen í Noregi dagana 8.-13. desember sl. Mótinu var skipt í tvo mótshluta, fyrir fatlað sundfólk annars vegar (Parasport) og ófatlað hins vegar, líkt og gert er á Íslandsmóti SSÍ og ÍF hér á landi.
Íslensku keppendurnir í báðum mótshlutum stóðu sig frábærlega.

Sjö einstaklingar tóku þátt í mótshluta fatlaðra, þau Sonja Sigurðardóttir, Thelma Björg Björnsdóttir, Anna Rósa Þrastardóttir, Róbert Ísak Jónsson, Þórey Ísafold Magnúsdóttir, Emelía Ýr Gunnarsdóttir og Herdís Rut Guðbjartsdóttir.
Róbert Ísak Jónsson varð Norðurlandameistari í 100 m bringusundi í flokki S14 og setti nýtt Íslandsmet í greininni þegar hann kom í mark á tímanum 1:07,89 mínútum í úrslitum. Hann varð einnig Norðurlandameistari í 200 m fjórsundi á tímanum 2:12,18 mín og hlaut silfur í 100 m baksundi á nýju Íslandsmeti. Þá setti hann einnig nýtt Íslandsmet í 100 m flugsundi þegar hann landaði silfrinu á tímanum 57,37 sek.
Sonja Sigurðardóttir varð Norðurlandameistari í 50 m baksundi á tímanum 1:07,89 mínútum. Þórey Ísafold Magnúsdóttir hlaut silfur í 200 m fjórsundi, 200 m skriðsundi og 100 m bringusundi og brons í 100 m flugsundi. Emelía Ýr Gunnarsdóttir hlaut brons í 200 fjórsundi og Anna Rósa Þrastardóttir brons 200 m skriðsundi.
Ísland vann samtals til 11 verðlauna á þessum mótshluta NM.

Tuttugu einstaklingar kepptu fyrir hönd Íslands í mótshluta ófatlaðra. Hópurinn náði besta árangri sem náðst hefur á NM í um áratug en mótið var firnasterkt. 
Birnir Freyr Hálfdánarson varð Norðurlandameistari í 200m fjórsundi en Birnir Freyr vann einmitt bronsverðlaun í sömu grein á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í sumar.
Snorri Dagur Einarsson hlaut silfur í 100 m bringusundi á nýju unglingameti, Björn Yngvi Guðmundsson hlaut brons í 1500m skriðsundi, Freyja Birkisdóttir hlaut brons í 800m skriðsundi og Patrik Viggó Vilbergsson hlaut brons í 100m baksundi.
Frábær árangur og góð fyrirheit um spennandi framtíð hjá íslenska sundfólkinu.

Myndir ÍF/SSÍ.

Myndir með frétt