Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Fjölmenn ráðstefna í Mexíkó um íslenska forvarnarmódelið

20.12.2022

Dagana 13.-15. desember var áhugaverð Planet Youth ráðstefna haldin í Leon, Guanajuato fylki í Mexíkó.

Planet Youth er fyrirtæki sem vinnur með íslenska forvarnarmódelið á alþjóðlegum vettvangi. Íslenska forvarnarmódelið byggir á vísindalegum gögnum og gagnreyndri þekkingu og er samstarf þeirra aðila sem koma að málefnum barna og ungmenna lykilatriði. Í gegnum árin hefur skapast þekking á þeim þáttum sem eru verndandi en einnig á áhættuþáttum þegar kemur að frávikshegðun barna og ungmenna. Einn af verndandi þáttunum er þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Ráðstefnan var fjölmenn, með rúmlega 2000 þátttakendum og fylgdust yfir 100.000 manns með í streymi. Starfshópur Planet Youth er alþjóðlegur og voru margir úr þeim hópi með fyrirlestra eða sáu um málstofur á ráðstefnunni.

Ragnhildi Skúladóttur sviðsstjóra Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ veittist sá heiður að halda fyrirlestur á ráðstefnunni, um skipulagt íþróttastarf barna og unglinga á Íslandi og hún stýrði einnig pallborðsumræðum og málstofu á ráðstefnunni.

„Það var mikil upplifun að sjá hvers stór ráðstefnan var og verða vitni að útrás íslenska forvarnarmódelsins. Einnig var eftirtektarvert að æðstu menn fylkisins, sjálfur fylkisstjórinn og heilbrigðisráðherrann skuli vera helstu hvatamenn þess að ná árangri þegar kemur að forvörnum gegn áfengi og vímuefnaneyslu barna og ungmenna. Mikill áhugi og metnaður er lagður í forvarnarstarfið í fylkinu og mikill vilji til að breyta og ná árangri,“ sagði Ragnhildur, spurð út í upplifun sína.

Í Guanajuato fylki búa yfir sex milljónir íbúa og er unnið með íslenska forvarnarmódelið í öllum sveitarfélögum í fylkinu. Annað fylki Yukatan, hefur einnig hafið vinnu með íslenska forvarnarmódelið og nú voru fimm önnur að bætast við.

Planet Youth er starfandi víða í heiminum m.a. í Chile, Argentínu, í Rúmeníu, á Spáni og í Vermont fylki í Bandaríkjunum.

Myndir með frétt