Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Blásið til sóknar í afreksíþróttastarfi - Vésteinn til starfa á Íslandi

21.01.2023

 

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skrifuðu í dag undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs á Íslandi. Vésteinn Hafsteinsson mun verða ráðinn Afreksstjóri ÍSÍ og mun samhliða því leiða nýjan starfshóp Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í Gautaborg í Svíþjóð fyrir stundu. Markmiðið er að umgjörð afreksíþróttastarfs verði eins og best verður á kosið þannig að afreksíþróttafólk okkar standi jafnfætis keppinautum sínum á alþjóðavísu.

Vésteinn þekkir vel til þarfa afreksíþróttafólks, bæði sem þjálfari og fyrrverandi kringlukastari í fremstu röð. Vésteinn var valinn þjálfari ársins í Svíþjóð eftir að lærisveinar hans Daniel Ståhl og Simon Pettersson unnu gull og silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021. Hann hefur komið að fjölbreyttu íþróttastarfi í gegnum tíðina og þekkir umhverfið og fólkið vel. Vésteinn hefur starfað víða erlendis og er í dag starfandi hjá sænsku Ólympíunefndinni, en öll þessi reynsla mun nýtast í nýju starfi á Íslandi. Vésteinn er ráðinn til næstu fimm ára til að leiða umbótastarfið og fylgja eftir breytingartillögum starfshópsins í samvinnu við ráðuneytið og ÍSÍ, samhliða starfi sínu sem Afreksstjóri ÍSÍ.

Starfshópi ráðuneytisins er ætlað að yfirfara og leggja til breytingar á umgjörð, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Honum er falið að skoða sérstaklega kostnaðarþátttöku keppenda og fjölskyldna þeirra í landsliðsstarfi og lýðréttindi afreksíþróttafólks innan almannatryggingakerfisins. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins auk fulltrúa íþróttahreyfingarinnar og annarra haghafa. Stefnt er að því að hann ljúki störfum og skili ráðherra tillögum að breytingum fyrir 1. september nk.

Starf Afreksstjóra ÍSÍ felur í sér umsjón með Afreksstefnu ÍSÍ og ráðgjöf varðandi afreksstefnur sérsambanda ÍSÍ. Afreksstjóri ÍSÍ mun meðal annars vinna að framgangi Afreksíþróttamiðstöðvar ÍSÍ, undirbúningi íslenskra keppenda fyrir ólympíska viðburði og að markmiðasetningu í íslensku afreksíþróttastarfi til næstu ára.

Vésteinn Hafsteinsson: „Ég er að koma heim til þess að íslenskt afreksíþróttafólk nái betri árangri í framtíðinni og stefnan er sett til 10 ára eða til 2032. Það verður samt sem áður viss forgangsröðun fyrir 2024 og síðan 2028. Á þessum tíma er ætlunin að stórefla starfið hjá ÍSÍ í mjög nánu samstarfi við ráðuneytið og sérsamböndin. Ég hef unnið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og veit hvað þau lönd eru að gera og hef áhuga á að byggja upp svipað kerfi á Íslandi með öflugri afreksíþróttamiðstöð sérfræðinga og til þess þarf að stórauka fjárframlög ríkis og fyrirtækja til afreksíþróttastarfsins svo við getum verið samkeppnishæf. Bæði afreksíþróttafólkið og þjálfarar verða að geta helgað sig þessu í fullri atvinnu til árangurs á heimsmælikvarða.“

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ: „Það er mikill fengur að fá Véstein til starfa fyrir ÍSÍ og íslenskt samfélag. Vésteinn þekkir vel hvað þarf til svo að afreksíþróttafólk nái árangri á alþjóðlegum vettvangi og getur miðlað þekkingu og leitt þá vinnu sem fram undan er hjá ÍSÍ og stjórnvöldum gagnvart þessum stóra málaflokki. Hann hefur starfað á þessum vettvangi hjá systursamtökum okkar, og náð gríðarlegum árangri. Þá hafa fáir Íslendingar sambærilega reynslu af afreksstarfi og Ólympíuleikum eins og Vésteinn og við væntum mikils af hans störfum í þágu afreksíþrótta. Mikilvægt er að allir vinni saman að því að efla sess afreksíþrótta í íslensku þjóðfélagi, þ.e. ÍSÍ, sérsambönd, íþróttahéruð, íþróttafélög, stjórnvöld, sveitarfélög, skólakerfið og atvinnulífið. Við erum alltaf sterkari saman og fyrir Ísland og Íslendinga er allt hægt.“

Myndir með frétt