Líf og fjör á EYOWF í dag og Bjarni Þór aftur á meðal 10 efstu
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir lauk keppni á EYOWF í dag, föstudag, þegar hún keppti í löngu prógrammi á listskautum. Freydís framkvæmdi prógrammið af miklum sóma og hlaut fyrir það einkunnina 51.66. Þegar einkunn hennar fyrir stuttaprógramið sem hún framkvæmdi á miðvikudaginn er lögð saman við einkunn dagsins hlýtur hún þegar uppi er staðið einkunnina 76.5 fyrir mótið og hafnar í 27. sæti.
Skíðagöngukeppni hátíðarinnar lauk í dag með keppni í 4x5km blandaðri boðgöngu. Íslensku sveitina skipuðu þau Fróði Hymer, Birta María Vilhjálmsdóttir, Ástmar Helgi Kristinsson og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir. Tími sveitarinnar var 1:04:05.8 sem skilaði þeim í 17. sæti.
Þá var einnig keppt í stórsvigi drengja þar sem við Íslendingar áttum fjóra keppendur. Bjarni Þór Hauksson átti mjög góðan dag í brekkunni í dag og varð í 10. sæti. Bjarni Þór hefur átt gríðarlega góðu gengi að fanga á hátíðinni en hann var einnig meðal 10 efstu í svigkeppninni. Matthías Kristinsson hafnaði í 34. sæti, Stefán Gíslason í 55. sæti og Torfi Jóhann Sveinsson í 56. sæti.
Á morgun, laugardag, verður keppt í risasvigi karla og kvenna þar sem við eigum þrjá keppendur, þau Esther Ösp Birkisdóttur, Matthías Kristinsson og Stefán Gíslason. Morgundagurinn er síðasti keppnisdagur EYOF og verður hátíðinni slitið við hátíðlega athöfn annað kvöld.