Leiksýningin Góðan daginn, faggi
Í vikunni bauð leikhópurinn Stertabenda og Þjóðleikhúsið stjórn og starfsfólki ÍSÍ sem og fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, á leiksýninguna Góðan daginn, faggi. Um er að ræða sjálfsævisögulegan heimildasöngleik, um hinsegin málefni og drauminn að tilheyra.
Fjölmennt var á sýningunni, sem var í senn áhugarverð og fræðandi auk þess sem boðið var upp á opið samtal í lok hennar á milli þátttakenda og áhorfenda. Farið var yfir ýmsa anga hinsegin málefna og gafst áhorfendum einnig kostur á að spyrja þátttakendur spurninga sem brunnu á þeim. Samtalið var hreinskilið og gott og setti punktinn yfir i-ið á flottri sýningu.
Eitt af meginmarkmiðum ÍSÍ er að berjast gegn hvers konar mismunun og ofbeldi í íþróttum, hvort sem um er að tefla mismunun vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar eða af öðrum toga. Ljóst er, að þó að ýmsum áföngum hafi verið náð í baráttu hinsegin fólks á Íslandi þá er enn rík þörf á að auka skilning í samfélaginu. Við sem tilheyrum íþróttasamfélaginu erum þar ekki undanskilin og því fögnum við þessari umræðu og hvetjum alla til að kynna sér þessi mál og sjá sýninguna sem fyrst áður en hún hættir. Við þökkum fyrir gott boð á flotta sýningu!