Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Heiðrun á 90. ársþingi USÚ

30.03.2023

 

90. ársþing USÚ fór fram á Fosshótel Vatnajökli, fimmtudaginn 23. mars sl. Þingið var vel sótt og stýrði Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, þinginu.

Þingið var hefðbundið og var farið yfir m.a. ársreikninga og starfsskýrslur auk breytingatillagna sem lágu fyrir þinginu.  

Engar breytingar urðu á stjórn USÚ og því heldur Jóhanna Íris Ingólfsdóttir áfram sem formaður auk annarra stjórnarmanna. Eina breytingin var sú að Björgvin Hlíðar Erlendsson var kosinn inn nýr sem varamaður.

Þá var íþróttamaður USÚ tilnefndur fyrir árið 2022, auk þess sem veitt voru hvatningarverðlaun USÚ en nánar verður fjallað um þessar viðurkenningar næstu daga á heimasíðunni usu.is

Fyrir hönd ÍSÍ mætti Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti og ávarpaði þingið.  Þá afhenti hún Gest Halldórsson, fráfarandi formann Golfklúbbs Hornafjarðar, silfurmerki ÍSÍ fyrir hans frábæru störf í þágu íþróttanna á svæðinu. Eftirfarandi umsögn var lesin upp um Gest:
Gestur hefur tengst íþróttahreyfingunni um langt árabil. Núna síðast sem formaður Golfklúbbs Hornafjarðar, en hann lét af því embætti nú á dögunum eftir a.m.k. áratugar stjórnarsetu. Undanfarin ár hefur Gestur reyndar lítið getað sinnt sínum eigin golfáhuga, því mikið hefur verið að gera í klúbbsstarfinu. Golfklúbburinn hefur t.d. verið að endurnýja vallarhúsið sitt, með Gest í broddi fylkingar, enda gengur hann í öll störf sem þar þarf að sinna, og auðvitað alls konar verk úti á velli að auki. Fyrir stjórnunarstörfin í Golfklúbbnum sat Gestur í stjórn Umf. Sindra um tíma auk þess sem hann stýrði getraunastarfi knattspyrnudeildar Sindra með miklum myndarbrag um árabil. Þá sat Gestur í stjórn Styrktar- og afrekssjóðs USÚ í tæpan áratug, frá 2011 til 2020.

ÍSÍ óskar Gesti innilega til hamingju með viðurkenninguna!

Á meðfylgjandi mynd hefur Þórey Edda Elísdóttir afhent Gesti viðurkenninguna sína.

Hér má finna árskýrslur, ársreikninga, fjárhagsáætlanir og fleiri gögn.

Myndir með frétt