Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2023

04.05.2023

 

Verkefnið Hjólað í vinnuna var formlega sett af stað í gær og voru á dagskrá hressileg hvatningarávörp góðra gesta.

Andri Stefánsson, framkvæmdarstjóri ÍSÍ, bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá verkefninu og þróun þess. Að því loknu tóku Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF og Úlfar Linnet, hjólreiðakappi til máls. Öll voru þau sammála um mikilvægi verkefnisins og hvöttu landsmenn til að velja þennan umhverfisvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra talaði um að Hjólað í vinnuna væri eitt það markverðasta og mikilvægasta lýðheilsuverkefni sem sett hafi verið af stað á undanförnum áratugum. Allt sem ýtir undir heilbrigðan lifstíl er ótrúlega mikilvægt, bæði fyrir fólkið sem tekur þátt í svona verkefni og ekki síður heilbrigðiskerfið.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, talaði um mikilvægi góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu.  Hann talaði einnig um hvað svona verkefni væri frábært fyrir loftslag og umhverfi. Fólk væri í meira mæli að nýta sér umhverfisvænan ferðamáta og auðveldara væri nú en áður að hjóla þar sem búið væri að gera góða hjólastíga á flestum stöðum. Þetta verkefni væri því gott fyrir fólkið og gott fyrir umhverfið.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri talaði um hvað hjólreiðar væru frábær samgöngumáti og á þessu ári væri t.d verið að koma upp hjólagrindum og aðstöðu fyrir hjól, við alla skóla í borginni. Hjólreiðasamfélagið sé orðin fjöldahreyfing og hjólið orðinn samþykktur samgöngu- og ferðamáti, það eigi að mæta þessari fjöldahreyfingu og gera betur.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar nefndi að það væri svo mikilvægt að þeir sem geti hjólað geri það til að létta á bæði umferð og loftgæðum. Varðandi keppnina sjálfa þá skoraði hún á þátttakandur að taka lengri leiðina heim og njóta umhverfisins. 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, minnti okkur á að það væru börnin sem taka skellinn þegar kemur að slæmum loftgæðum, ekki bara hér á Íslandi heldur um heim allan. Í ár hafa UNICEF og Hjólað í vinnuna tekið höndum saman. Fyrirtækjum, sem taka þátt í Hjólað í vinnuna, verður gefin kostur á að styrkja Loftlagssjóð í gegnum áheit. Þá heitir fyrirtæki á starfsfólkið sitt að ákveðinni upphæð, sem fyrirtækin sjálf ákveða og mun sá peningur fara í að styrkja starf UNICEF. Loftlagssjóður styrkir meðal annars menntun og fræðslu fyrir börn og ungt fólk varðandi loftlagsáhrif, nýsköpun á sjálfbærum og umhverfisvænum lausnum fyrir heilbrigðis- og menntakerfi og styrkir innviði samfélaga til að auka viðnám við loftlagsbreytingum.

Næstu daga mun UNICEF opna fjáröflunarsíðu inná www.unicef.is
Starfsfólk UNICEF mun hafa samband við fyrirtæki sem hafa skráð fyrirtæki til keppni 

Úlfar Linnet, hjólreiðakappi, sá til þess að fólk fór út með bros á vör.

Frekari upplýsingar og fleiri myndir má finna inn á heimasíðu Hjólað í vinnuna.

Myndir með frétt