Kynning á íslenska forvarnarmódelinu og starfi íþróttafélaga
Fjölmennur hópur frá Washington fylki í Bandríkjunum kom í heimsókn í Íþróttamiðstöðina í Laugardal til að fræðast um uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, íþróttir barna og unglinga og hlut íþrótta í íslenska forvarnarmódelinu. Hópurinn samanstóð af fulltrúum sex frumbyggjahópa og nokkrum ríkisstarfsmönnum Washington fylkis auk Margrétar Lilju Guðmundsdóttur og Jóns Sigfússonar frá ráðgjafafyrirtækinu Planet Youth.
Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, tóku á móti hópnum og héldu erindi um íþróttahreyfinguna, sérstöðu íþrótta barna og unglinga, Ánægjuvogina sem Rannsóknir og greining framkvæmir fyrir ÍSÍ og UMFÍ. Auður fjallaði svo um skipulag íþróttahreyfingarinnar, áherslur UMFÍ ásamt verkefnum þess, samstarfi og stuðningi við sambandsaðila.