Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ísland lýkur keppni á Smáþjóðaleikum og endar í fimmta sæti með 41 verðlaun

05.06.2023

 

Keppni á Smáþjóðal­eik­un­um 2023 á Möltu lauk nú um helgina. Seinasti keppnisdagurinn var á laugardag, 3. júní og var glæsileg lokahátíð haldin um kvöldið í Floriana Granaries, þar sem leikunum var formlega slitið.

Síðustu keppnir íslenska liðsins voru í skotfimi, siglingum og frjálsíþróttum. Á föstudag hóf Pétur T. Gunnarsson keppni í undanúrslitum í leirdúfuskotfimi og komst í úrslit. Úrslitakeppnin var haldin á laugardag og endaði hann í 5. sæti. 

Í siglingakeppnunum hjá Ilca 6 gekk mjög vel og náði Hólmfríður K. Gunnarsdóttir 11. og 14. sæti í keppnunum dagsins og þeir Sigurður Haukur Birgisson og Hrafnkell S. Hannesson best 15. og 18. sæti. Því miður var keppnum á Optimist frestað sökum lítils vinds en Veronika Sif Ellertsdóttir var í 17. sæti í heildarkeppninni og náði best 13. sæti í mótinu.  Kjartan Christiansson var í 19. sæti og náði best 15. sæti. Öll stóðu þau sig frábærlega og bættu sig daglega í keppnum vikunnar. Lokastaðan í siglingakeppnunum má finna hér.  

Frjálsíþróttaliðið endaði svo mótið og nældi sér í ein gullverðlaun þegar Örn Davíðsson sigraði í spjótkasti með kasti uppá 71,69m og ein silfurverðlaun þegar Ívar Kristinn Jasonarson í 400m grindahlaupi á tímanum 52,17 sek. Að lokum náði liðið í þrenn bronsverðlaun þegar Ingibjörg Sigurðardóttir bætti tímann sinn í 400m grindahlaupi á tímanum 60,63 sek og 4x400m sveit karla og kvenna fengu bæði bronsverðlaun. Karlasveitin kom í mark á tímanum 3:18,76 mín og voru það Ívar Kristinn, Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson, Ísak Óli Traustason og Sæmundur Ólafsson sem skipuðu hana. Kvennasveitin kom í mark á tímanum 3:51,76 mín og skipa sveitina Glódís E. Þ. Hjaltadóttir, Þórdís E. Steinsdóttir, Elín S. Sigurbjörnsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir.

Hér má finna keppnir og úrslit fyrir allar íþróttagreinar eftir dögum.

Ísland hafnaði í 5. sæti á verðlaunatöflu Smáþjóðaleikanna með 41 verðlaun.
Af þessum fjölda fékk sundliðið 31 verðlaun; 10 gull, 11 silfur og 10 brons. Skotfimiliðið átti einn silfurverðlaunahafa og júdóliðið átti tvo bronsverðlaunahafa. Frjálsíþróttaliðið fékk alls sjö verðlaun; eitt gull, eitt silfur og fimm bronsverðlaun.  

Malta tyllti sér á toppinn með 97 verðlaun, þarf af 38 gull og 30 silfur, flest allra þjóða. Kýp­ur var í 2. sæti með 87 verðlaun. Lúxemburg endaði í 3. sæti og Mónakó í því fjórða. Nánar um skiptingu verðlauna má finna hér.

Íslenskir þátttakendur fór heim í gærkvöldi. Næstu Smáþjóðaleikar verða haldnir í Andorra árið 2025.

Myndir með frétt