Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Bjarni Fel kvaddur

04.10.2023

 

Í dag var Bjarni Felixson, íþróttafréttamaður, til hinstu hvílu lagður.

Bjarni var í starfi sínu sem íþróttafréttamaður óþreytandi við að koma íþróttum á framfæri á sinn óviðjafnanlega og skemmtilega hátt. Studdi hann með því dyggilega við fjölbreytt íþróttalíf í landinu. Hann var sjálfur knattspyrnumaður, vann fjölda titla með KR og spilaði með landsliði Íslands sex leiki. Hann var einnig virkur í starfi fjölmargra félagasamtaka og sat meðal annars í stjórn knattspyrnudeildar og aðalstjórnar KR á árum áður. Hann átti einnig sæti í stjórn KSÍ 1973-1974 og var formaður Samtaka íþróttafréttamanna árin 1978-1980.

Bjarni var sæmdur Gullmerki ÍSÍ árið 1996 og Heiðurskrossi ÍSÍ, æðsta heiðursmerki ÍSÍ, árið 2013 fyrir hans frábæra framlag til íþróttastarfsins á Íslandi. Að auki hlaut hann árið 2004 heiðursviðurkenningu frá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC), „IOC trophy - Sport and Media” en viðurkenningin er veitt einstaklingi eða samtökum sem hafa gegnt stóru hlutverki í þróun íþrótta og miðlunar. Heiðursviðurkenningin var afhent á 67. Íþróttaþingi ÍSÍ 24. apríl 2004.

Bjarni hlaut ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir störf sín og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á sviði íþróttamála, félagsmála og miðlunar árið 2022.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ hugsar hlýtt til Bjarna, með þakklæti fyrir hans ómetanlega starf í þágu íþrótta á Íslandi. Hans verður saknað úr starfinu.

Álfheiði, eiginkonu Bjarna, og fjölskyldu hans sendum við dýpstu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Bjarna Fel.

Myndir með frétt