Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Áttundi nóvember er tileinkaður baráttunni gegn einelti!

08.11.2023

 

Á hverju ári er 8. nóvember haldinn hátíðlegur því sá dagur er tileinkaður baráttunni gegn einelti.  Dagurinn hefur verið kallaður „Dagur gegn einelti” en markmið hans er að minna okkur á mikilvægi þess að sporna við og stoppa einelti þegar við verðum þess vör, en einnig að efna til umræðu, fræðslu og viðburða og hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.  

Í morgun bauð Heimili og skóli til athafnar í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og var aðaltilefnið afhending hvatningarverðlauna til þess einstaklings eða hóps sem þótti hafa borið af í baráttunni gegn einelti. Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra mennta- og barnamála, var boðið á samkomuna auk annarra góðra gesta.  Fjölmargar tilnefningar bárust en það var Lilja Ósk Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála við Tækniskólann sem hlaut verðlaunin að þessu sinni.  Lilja hefur með elju sinni og áhuga unnið ötullega gegn einelti og stutt marga minnihlutahópa um leið, á sinni vegferð.  Henni var þakkað vel fyrir hennar framlag til baráttunnar gegn einelti.  

Reglulega sprettur upp umræða um einelti og/eða samskiptavanda og hefur undanfarið verið áberandi neikvæð umræða í garð samkynhneigðra, trans og kynsegin fólks og fólks af erlendum uppruna.  Á þetta bæði við um fullorðna sem og börn og unglinga.  Það er ábyrgð þeirra sem eldri eru að upplýsa og fræða hina ungu og tryggja þannig að allir geti lifað í sátt og samlyndi hvert með öðru enda erum við öll ólík og fögnum fjölbreytileikanum.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) er aðili að þjóðarsáttmála gegn einelti þar sem allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu. ÍSÍ hvetur alla, jafnt í íþróttahreyfingunni sem og annars staðar, til að vanda til verka og hjálpast að við að koma í veg fyrir eða stoppa einelti, verði þeir þess varir.  

ÍSÍ bendir sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum innan þeirra vébanda á samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf þar sem finna má greinargóðar upplýsingar varðandi málaflokkinn og þá ekki síst hvernig bregðast skal við tilkynningum er varða samskiptavanda eða einelti. 

Þú getur nálgast viðbragðsáætlunina hér!

Myndir með frétt