Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Átakinu Syndum lokið með rúmlega 20 hringjum í kringum Ísland

06.12.2023

 

Landsátakinu Syndum lauk 30. nóvember síðastliðinn en átakið hófst með setningu í Kópavogslaug þann 1 . nóvember.  Um er að ræða sameiginlegt átak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Sundsambands Íslands (ÍSS) sem vilja með þessu hætti hvetja landsmenn til meiri hreyfingar í gegnum sundið.  Sund höfðar til allra landsmanna, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er þar að auki heilsubætandi og styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans.

Átakið er viðburður undir Íþróttaviku Evrópu sem tókst vel í ár. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.

Til þess að taka þátt í átakinu skráðu þátttakendur sig inn á www.syndum.is og skráðu metrana sem þeir syntu.  Í ár tóku grunnskólar og sundfélög þátt í fyrsta skipti og hafði þátttaka þeirra mikil áhrif á niðurstöðuna, það er að segja á synta metra. Samtals lögðu landsmenn um 26.850 km að baki sem samsvarar rúmlega 20 hringjum í kringum Ísland. Til samanburðar voru syntir 13.515 km á síðsta ári eða rúmlega 10 hringir í kringum Ísland.  Sannarlega flottur árangur!

Þeir grunnskólar sem tóku þátt í átakinu voru; Hraunvallaskóli, Skarðshlíðarskóli, Kerhólsskóli, Hamraskóli, Flúðaskóli, Engjaskóli/Foldaskóli, Þjórsárskóli, Grunnskólinn á Ísafirði, Stekkjaskóli, Sunnulækjarskóli og Djúpavogsskóli. Sundfélögin sem tóku þátt voru: Sundráð ÍRB, Sunddeild Aftureldingar, Sunddeild Ármanns, Sunddeild KR, Sundfélagið Ægir, Sundfélag Hafnarfjarðar og Sundfélagið Öspin.

Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) tók átakið með trompi. Tæplega 170 þátttakendur skráðu sundmetrana og syntu yfir 8 þúsund kílómetra eða um 7 hringi í kringum Ísland. Sú laug sem var með flesta skráða metra var Ásvallalaug í Hafnarfirði en skráðir metrar, voru 9.807,60 km, en næsta sundlaug á eftir var Vatnaveröld, í Reykjanesbæ, með skráða 4.191,40 km.  Sundfélag Hafnarfjarðar á sannarlega sinn þátt í að koma Ásvallalaug á toppinn. Virkilega vel gert og til hamingju Ásvallalaug með árangurinn!

Almenn ánægja var meðal þátttakenda með átakið og margir nýttu sér það sem hvatningu til að synda oftar eða lengra. Reglulega voru dregnir út þátttakendur í skráningarleik og hlutu þeir heppnu gjafir frá styrktar- og samstarfsaðilum átaksins; H-verslun, Craft og Taramar, auk þess sem ÍTR og Akureyrarbær gáfu kort í sund.  

ÍSÍ þakkar öllum þeim sem tóku þátt og hjálpuðu til við átakið. Finna má frekari upplýsingar um átakið á heimasíðu Syndum þar sem sjá má vegalengdir sem syntar voru í hverri sundlaug.