Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Heiðursviðurkenningar á Degi sjálfboðaliðans

06.12.2023

 

Dagur sjálfboðaliðans var í gær, 5. desember, og við það tækifæri buðu ÍSÍ og UMFÍ sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar á málþing og í vöfflukaffi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Haraldur Ingólfsson Íþróttaeldhugi ársins 2022 og þau Þóra Guðrún Gunnarsdóttir og Friðrik Þór Óskarsson, sem einnig voru útnefnd til titilsins á síðasta ári, héldu öll frábær erindi um sjálfboðaliðastörf í hreyfingunni og um þá þætti sem halda eldinum logandi hjá sjálfboðaliðum. 

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, sæmdi í upphafi viðburðarins, þá Friðrik Þór Óskarsson og Harald Ingólfsson Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra frábæra framlag til íþróttahreyfingarinnar. Þóra Guðrún var sæmd Gullmerki ÍSÍ á ársþingi Skautasambands Íslands fyrr á árinu. Öll þrjú eru frábærir fulltrúar allra þeirra ómetanlegu sjálfboðaliða sem starfa í hreyfingunni um allt land og var bæði fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á þeirra frásagnir.

Á forsíðumynd fréttarinnar eru frá vinstri:  Friðrik Þór, Þóra Guðrún, Lárus og Haraldur. Aðrar myndir sýna eldhugana þrjá flytja erindi sín.

ÍSÍ þakkar öllum sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi fyrir ómetanlegt framlag til íþróttastarfsins.

Vöfflukaffið var í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar.

 

Myndir með frétt