Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Íslenskt íþróttafólk stóð sig mjög vel um helgina

11.12.2023

 

Um helgina var afar góð helgi hjá íslensku íþróttafólki víðs vegar um heiminn.

Anton Sveinn McKee tók þátt í 200 metra bringusundi í 25 metra laug á Evrópumótinu í Otopeni í Rúmeníu.  Hann stóð sig afar vel og hlaut silfurverðlaun eftir að hafa verið í hörkubaráttu um forystuna allt sundið.  Hann var aðeins 33/100 úr sek­úndu á eft­ir Ca­sp­ar Cor­beau frá Hollandi þegar hann synti á 2:02,74 sek­únd­um.  Anton Sveinn hefur nú þegar tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fara fram í París á næsta ári.   

Snæfríður Sól Jórunnardóttir stóð sig einnig vel er hún synti í 100 metra skriðsund á sama móti á nýju Íslandsmeti.  Hún synti á 53,11 sek en gamla metið hennar var 53,19 sek. Snæfríður hafnaði í níunda sæti í sundinu.  Hún keppti til úrslita í 200 metra skriðsundi og endaði í sjöunda sæti.  
Nánari frétt um íslenska sundfólkið má finna á heimasíðu Sundsambands Íslands.

Eygló Fanndal Sturludóttir tók þátt í heimsbikarmótinu í lyftingum í Katar.  Hún sigraði B-hóp, endaði í 11.sæti ásamt því að setja fjögur ný Íslandsmet og jafna Norðurlandamet í snörun og jafnhendingu.  Þessi góði árangur styrkir stöðu hennar á úrtökulistanum fyrir Ólympíuleikana sem verða í júlí í París á næsta ári.  
Nánari frétt má finna á heimasíðu Lyftingarsambandsins.

Kristín Þórhallsdóttir stóð sig líka vel um helgina þegar hún keppti á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum.  Kristín, sem er núverandi Evrópumethafi í hnébeygju, fékk bronsverðlaun á mótinu fyrir samanlagðan árangur.  Hún kemur þó heim með fleiri verðlaun því hún fékk silfur í hnébeygju og brons í bekkpressu. Hún náði ekki að klára síðustu lyftuna sína í réttstöðulyftu og missti af verðlaunum í þeirri grein keppninnar.
Nánari frétt má finna á heimasíðu Kraftlyftingasambandsins.

Myndir voru fengnar af heimasíðum sérsambandanna.

ÍSÍ óskar öllum keppendum til hamingju með flottan árangur um helgina.

 

Myndir með frétt