Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
6

Jón Gestur Viggósson, Heiðursfélagi ÍSÍ, látinn

29.12.2023

 

Jón Gestur Viggósson, Heiðursfélagi ÍSÍ, lést á krabbameinsdeild Landspítalans 22. desember síðastliðinn.
Hann var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2019, æðsta heiðursmerkis ÍSÍ og var kjörinn Heiðursfélagi ÍSÍ á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2021, en kjör Heiðursfélaga ÍSÍ er æðsta heiðursviðurkenning innan íþróttahreyfingarinnar.

Jón Gestur lék 257 leiki með meistaraflokki FH í handknattleik og sat í aðalstjórn og deildastjórnum félagsins í fjölda ára.  Hann sat í stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar tímabilið 1995 – 2009, þar af sem gjaldkeri bandalagsins frá árinu 1999. Jón Gestur sat í stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í 15 ár, fyrst í varastjórn tímabilið 2000-2009 og síðan í aðalstjórn árin 2009 – 2015. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir sambandið á meðan hann sat í stjórn, meðal annars átti hann lengi sæti í fjármálaráði ÍSÍ. Jón Gestur tók virkan þátt í starfi ÍSÍ og mætti vel á viðburði sambandsins. 

ÍSÍ kveður góðan liðsmann og vin sem var ötull í starfi fyrir íþróttahreyfinguna um langt árabil. Jón Gestur var hlýr og hvetjandi við samferðafólk sitt, traustur og áreiðanlegur og mikill fjölskyldumaður.
Hans verður sárt saknað.
Stjórn og starfsfólk ÍSÍ sendir Þorbjörgu, fjölskyldunni allri og öðrum aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur.