Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

„Við gerum miklar kröfur á aðildarfélög okkar“

01.02.2024

 

Íþróttabandalag Akureyrar hlaut endurnýjun viðurkenningar bandalagsins sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ á verðlaunahátíð sem haldin var á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og Akureyrarbæjar í Hofi miðvikudaginn 31. janúar síðastliðinn. 

Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ, afhenti Geir Kristni Aðalsteinssyni formanni ÍBA viðurkenninguna.  Þess má geta að af 20 aðildarfélögum ÍBA eru 11 þeirra með viðurkenningu frá ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélög.  Það eru fleiri félög en í nokkru öðru íþróttahéraði hvort sem litið er til tölunnar eða hlutfalls. 

Á myndinni eru frá vinstri; Birna Baldursdóttir varaformaður ÍBA, Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála hjá Akureyrarbæ, Heimir Örn Árnason formaður Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar, Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA, Helga Björg Ingvadóttir framkvæmdastjóri ÍBA, Ingvar Gíslason stjórnandi hátíðarinnar og Viðar Sigurjónsson stjórnsýslusviði ÍSÍ.

„Við gerum miklar kröfur á aðildarfélög okkar um að allir ferlar, bókhald og annað utanumhald rekstursins standist skoðun og við sem regnhlíf yfir íþróttastarfið á Akureyri þurfum að leiða með góðu fordæmi.  Ábyrgð okkar er einnig mikil þegar kemur að t.d. lögum og reglugerðum, verkferlum í eineltis- og kynferðismálum, siðareglum og eftirliti með íþróttafélögum.  Þar hefur gæðakerfið sem Fyrirmyndarhéraðsviðurkenningin er, hjálpað okkur mikið“, sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA af þessu tilefni.