Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Hvatasjóður Allir með styrkir íþróttir á Selfossi

04.03.2024

 

Fimmtudaginn 29. febrúar sl. var undirritaður samstarfssamningur á vegum Hvatasjóðs hjá verkefninu Allir með, annars vegar við Ungmennafélagið Selfoss og hins vegar við Íþróttafélagið Suðra.  Fjölmenni var við undirritunina, sem fram fór á Selfossi.  Í samningnum felst að Hvatasjóðurinn styrkir íþróttastarf og voru það Helgi S. Haraldsson, formaður Ungmennafélags Selfoss, Ófeigur Ágúst Leifsson frá Íþróttafélaginu Suðra, og Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri verkefnisins Allir með, sem skrifuðu undir hann. 
Að verkefninu standa Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélag Íslands (UMFÍ), Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) auk þriggja ráðuneyta, þ.e. Mennta- og barnamálaráðuneytisins, Heilbrigðisráðuneytisins og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. 

Valdimar Gunnarsson frá Allir með sagði að af rúmlega 3.000 börnum með fötlun á Íslandi stundi afar lítill hópur íþróttir eða aðeins 4%. Ljóst sé að fjölga þurfi tækifærum fyrir börn í þessum hópi og gengur verkefni Allir með út á það. Markmiðið sé að breyta þessu en börn með fötlun innan sex til 16 ára sé eiginlega ekki að finna innan íþróttahreyfingarinnar. Valdimar hefur farið víða um land til að kynna verkefnið og Hvatasjóðinn sem nú styrkir níu verkefni í nokkrum sveitarfélögum. 

Valdimar sagði margt í bígerð í þeim tilgangi að fjölga tækifærum barna með fötlun í íþróttum. Þar á meðal séu Íslandsleikarnir svokölluðu, sem er körfuknattleiks- og knattspyrnumót sem haldið verður 16. - 17. mars. Í því felst m.a. að hópur barna með fötlun fer í rútu til Akureyrar til keppni, iðkendur á Akureyri taki á móti þeim, og þau gista á dýnum í skólum eins og aðrir íþróttahópar.

Þá var Þórdís Bjarnadóttir, frá Íþróttafélaginu Suðra, ánægð með samninginn og hvatti alla þjálfara til að taka þessu verkefni með opnum hug.  Helgi Haraldsson, frá Ungmennafélagi Selfoss, var einnig jákvæður með samninginn og þess fullviss að Ungmennafélagið Selfoss gæti látið verkefnið stækka og dafna og fannst kominn tími til að huga betur að börnum með fötlun.  

Hér má finna frekari upplýsingar um verkefnið Allir með.

ÍSÍ fagnar þessum samningi og vonar að hann auki þátttöku barna með fötlun og að þau fái frekari tækifæri til að stunda íþróttir.

 

 

Myndir með frétt