Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Konur og íþróttir: forysta og framtíð vel sótt á alþjóðlegum baráttudegi kvenna!

08.03.2024

 

Ráðstefnan Konur og íþróttir, forysta og framtíð, var sérstaklega vel sótt en hún var haldin í morgun á Fosshóteli, Þórunnartúni 1, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Um 120 þátttakendur mættu á ráðstefnuna en um 100 manns tóku virkan þátt í gegnum streymi.  Dagskráin var þétt frá kl.09.00 til rúmlega 12.30 með mörgum afar áhugaverðum erindum. 

 
Olga Bjarnadóttir, 2. varaforseti ÍSÍ, setti ráðstefnuna og var jafnframt fundarstjóri dagsins í fjarveru Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, meðlims í framkvæmdastjórn ÍSÍ, sem var því miður veik.  
Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, hélt fyrsta erindið sem fjallaði um áskoranir kvenna í forystuhlutverkum innan íþróttanna og í kjölfarið sögðu Klara Bjartmarz, fráfarandi framkvæmdastjóri KSÍ, og Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, frá sínum upplifunum í forystuhlutverkum innan sinna sérsambanda, Klara sem framkvæmdstjóri KSÍ og Hulda sem forseti GSÍ.  Áskoranirnar voru margar sem þær lentu í, í þessum karllæga heimi, en tækifæri sömuleiðis mörg, sem þær ákváðu að nýta sér. Eftir erindin fóru fram pallborðsumræður, þar sem rætt var um það hvers vegna konur byðu sig ekki meira fram en raun ber vitni og hvað hægt væri að gera til að jafna hlut kvenna í stjórnum og stjórnendahlutverkum.  Þátttakendur í pallborðsumræðum voru Guðmunda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, og Sólveig Jóndsóttir, framkvæmdastjóri FÍS, auk Klöru og Huldu en það var Ragnhildur Skúladóttir, sviðstjóri Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, sem stjórnaði pallborðsumræðunum af mikilli röggsemi.

Næsti hluti ráðstefnunnar sneri að konum í hlutverki dómara og voru það Bríet Bragadóttir, alþjóðlegur knattspyrnudómari, Erna Héðinsdóttir, alþjóðlegur lyftingadómari, og Hlín Bjarnadóttir, alþjóðlegur fimleikadómari, sem héldu erindi um sína reynslu og upplifun á svæði dómgæslunnar en áhugavert er hvers vegna svo fáar konur sækjast eftir því að taka að sér hlutverk dómara eins. Mörg sérsambönd hafa talað um að ýmislegt hafi verið reynt til að fjölga konum sem dómurum án árangurs.  

Síðasti hluti ráðstefnunnar fjallaði um þjálfun kvenna og konur sem þjálfarar á afreksstigi. Hulda Mýrdal, frá Heimavellinum, reið á vaðið og sagði sína sögu af því að hvernig það hefði gengið að gefa knattspyrnukonum í atvinnumennsku sviðið í gegnum verslunina Heimavöllinn og búa til fyrirmyndir fyrir yngri leikmenn. Díana Guðjónsdóttir, handknattleiksþjálfari, fór yfir viðhorf og skrýtnar spurningar sem hún hefur fengið í gegnum tíðina vegna starfs síns sem þjálfari og Gunnar Páll Jóakimsson, frjálsíþróttaþjálfari, fór yfir helstu atriði sem honum fannst vera mismunandi á þjálfun karla og kvenna. Lára Hafliðadóttir, frá stjórn Hagsmunasamtaka kvenna í knattspyrnu (HKK), hélt síðasta erindið sem klukkaði marga þætti er varðand þjálfun kvenna.

Ráðstefnuslit voru svo í höndum Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóa UMFÍ, en hún er fyrsta konan til að setja í stól framkvæmdastjóra UMFÍ. Erindi hennar hét Áfram veginn og hvatti hún konur ótrauðar áfram til að láta til sín taka og gera sig áberandi í forystuhlutverkum í íþróttahreyfingunni, hvort sem það var í stjórnum íþróttafélaga og íþróttasambanda eða innan dómgæslu og þjálfunar. 
 
Á meðan á ráðstefnunni stóð var þátttakendum í sal, og þeim sem fylgdust með í gegnum streymi, boðið að taka þátt í ráðstefnunni með því að senda inn spurningar í gegnum Slido-samskiptaapp og svara í lok ráðstefnu spurningalista, sem búinn hafði verið til til að meta gagnsemi ráðstefnunnar. Þar sem ekki var hægt að taka saman rafræna samantekt í lokin vegna tímaleysis, verður greint síðar frá samantektinni og niðurstöðum. Þeir sem skráðir voru á ráðstefnuna munu fá sendan spurningalistann og standa vonir til að allir gefi sér tíma, sem fyrst, til að svara spurningunum svo hægt verði að vinna úr þeim.  

Meðfylgjandi myndir eru frá Jóni Aðalsteini, hjá UMFÍ en fleiri myndir munu verða setta inn síðar!

ÍSÍ og UMFÍ þakka fyrirlesurum fyrir flott erindi sem og öllum sem mættu og fylgdust með streyminu fyrir frábæra ráðstefnu!

Myndir með frétt