Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
14

Viðhorfskönnun á ráðstefnunni Konur og íþróttir

22.03.2024

 

Ráðstefnan Konur og íþróttir – forysta og framtíð fór fram á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars síðastliðinn. Mikil ánægja var með ráðstefnuna og komust færri að en vildu í salinn og mikill fjöldi fylgdist með í streymi. 

Í lok ráðstefnunnar svöruðu þátttakendur í sal og á streymi viðhorfskönnun um málefnið en einnig um ráðstefnuna sjálfa en allir ráðstefnugestir voru sammála um að efni ráðstefnunnar hafi verið gagnlegt. Einnig var spurt hvort setja ætti kynjakvóta á stjórnir íþróttahreyfingarinnar og svöruðu 47% því játandi, 19% neitandi og 33% svöruðu að þeir vissu það ekki. 

Fjórar opnar spurningar fylgdu í kjölfarið og í þeirra fyrstu, þar sem spurt var Hvað lærðir þú eftir daginn?, voru svör eins og:
„Við konur þurfum að þora að taka meira pláss”.
„Að þær konur sem hafa tekið að sér stjórnunarstörf hafa flestar fengið „klukk”, ég þarf sjálf að klukka fleiri konur.”
„Hvað við eigum virkilega flottar fyrirmyndir sem eru búnar að brjóta múra og ryðja brautina fyrir okkur sem komum á eftir.” 
„Þurfum að vera duglegri að hrósa og hvetja konur til starfa.”

Næsta spurning var; Hverju þarf að breyta að þínu mati í starfsumhverfi íþróttahreyfingarinnar til þess að fjölga konum í forystu? Dæmi um svör voru: „Konur í forystu þurfa að vera sýnilegar og hvetjandi fyrir kynslóðirnar sem koma á eftir.“ „Punktarnir um aðra og þriðju vaktina voru stórkostlegir. Ef að það væri hægt að samtvinna skóla/vinnumarkað inn í íþróttastarfsemina svo æfingatími gæti verið í hádeginu eða á þessum 8-16 tíma væri það frábært. Laun skipta máli og það er alltaf það stærsta fyrir fjölskyldufólk, erfitt að vera í 100% starfi og svo þjálfa aukalega á háu stigi.“ „Konur þurfa að hætta að segja NEI. Fleiri konur í að stjórna fjármálum félaga og sérsambanda þá eykst fjármagn til skiptanna, þær eru mjög hagsýnar.“

Spurningunni Hver finnst þér að ættu að vera næstu skref íþróttahreyfingarinnar í framhaldi af umræðum dagsins? var m.a. svarað á eftirfarandi hátt: „Stofna FKÍ (Félag kvenna í íþróttahreyfingunni) og setja upp aðgerðaáætlun fyrir íþróttahreyfinguna í heild sinni sem sérsambönd geta bútað niður innan hverrar íþróttar til að fjölga sérstaklega kvenfólki í þjálfun og dómgæslu. Ásamt því að stjórnarfólk séu kvenfólk áfram og gefist ekki upp. Annað þá finnst mér við líka þurfa áhugafólk innan fjölmiðla sem standa með konum. Hvort sem það er konur, karlar eða annað kyn.“ „Efla rannsóknir! Bæði á konum í íþróttum og hvers vegna þær taka síður þátt utan vallar.“ „Valdeflingarnámskeið fyrir konur með áhuga á forystu og stjórnun.“

Síðasta opna spurningin hljómaði svona; Hverju getur þú breytt í þínu umhverfi til þess að fjölga konum í forystu? „Halda faglegri orðræðu hátt á lofti. Greina tækifæri. Sjá til þess að konur hafi sömu tækifæri og karlar til að sinna þessum hlutverkum sem voru til umræðu.“ „Stofna vettvang fyrir konur í hreyfingunni til að deila þekkingu og reynslu. Betra væri jafnvel að slíkur vettvangur væri líka fyrir öll kyn í hreyfingunni. „Hvetja konur í kringum mig til að taka þátt. Vera sjálf sýnileg og dugleg að taka að mér verkefni.“ „Hrósa og hvetja fleiri konur til að taka þátt.“