Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
18

Forseti ÍSÍ ánægður með skref sem tekin voru við kynningu skýrslu um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks

03.05.2024


 
Skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt á blaðamannafundi í Laugardalshöll þriðjudaginn 30. apríl. Hlutverk starfshópsins var að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem hópurinn taldi þurfa til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði í fremstu röð. Hópurinn hefur skilað meðfylgjandi skýrslu þar sem staða og umgjörð afreksíþrótta á Íslandi er greind og settar fram tillögur að nýrri nálgun í afreksmálum og aðgerðum til nokkurra ára. Skýrsluna má lesa hér.

Skýrslan var kynnt með formlegum hætti og var það mennta- og barnamálaráðuneytið og Ásmundur Einar Daðason, ráðherra sem stóðu fyrir kynningunni ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ). Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, mættu ásamt forseta ÍSÍ, Lárusi L. Blöndal, formanni UMFÍ, Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, og öðrum gestum og velunnendum íþrótta. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, tók þátt í pallborðsumræðum að kynningu lokinni ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra, Arnari Þór Sævarssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga og Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ.

Lárus var afar ánægður með starf starfshópsins og að tillögur væru komnar fram til að bæta enn frekar umgjörð afreksíþrótta. Var hann sérstaklega ánægður með þann velvilja sem stjórnvöld væru að sýna þar sem þau hyggjast koma enn sterkar að þessum málaflokki og verkefnum framtíðarinnar. Hann fagnaði þessu skrefi sem tekið væri og taldi þennan dag einn af merkisdögum íþrótta á Íslandi. Umhverfi íþrótta og afreksíþrótta hafi hingað til verið krefjandi á Íslandi og ekki á allra færi að stunda íþróttir vegna erfiðra aðstæðna og lítils fjárstyrks. Þegar þessar tillögur ná fram að ganga sæi hann fram á betri tíma í íslensku íþróttalífi og kvaðst spenntur fyrir framtíðinni.

 

Myndir með frétt