Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Það skiptir íþróttafólk miklu máli að fá ríkulegan stuðning

08.05.2024

 

Skýrsla starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt á blaðamannafundi í Laugardalshöll þriðjudaginn 30. apríl. Hlutverk starfshópsins var að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem hópurinn taldi þurfa til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði í fremstu röð. Hópurinn, undir forystu Vésteins Hafsteinssonar, Afreksstjóra ÍSÍ, hefur skilað meðfylgjandi skýrslu þar sem staða og umgjörð afreksíþrótta á Íslandi er greind og settar fram tillögur að nýrri nálgun í afreksmálum og aðgerðum til nokkurra ára. Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.

Fulltrúar afreksíþróttafólks og tvö af þrettán sem skipa Ólympíuhóp ÍSÍ, Anton Sveinn McKee, sundmaður og Ólympíufari, og Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingakona, voru mætt og tóku þátt í pallborðsumræðum að lokinni kynningu skýrslunnar ásamt Vésteini Hafsteinssyni. Fleiri úr Ólympíuhópi ÍSÍ voru mætt á fundinn, Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp, Guðni Valur Guðnason, kringlukast og Hákon Þór Svavarsson, haglabyssuskotfimi.

Anton Sveinn og Eygló Fanndal voru sérstaklega ánægð með þennan áfanga og fögnuðu mjög því starfi sem væri verið að leggja til með skýrslunni. Þau töluðu bæði um það hversu erfitt afreksíþróttaumhverfið á Íslandi væri, þegar sífellt þyrfti að hafa áhyggjur af núverandi fjárhagsstöðu sem og framtíðinni, samhliða því að vera að leggja sig fram við að ná sem bestum árangri við bæði æfingar og keppni.  

Anton Sveinn sagðist oft hafa upplifað erfiða tíma. Hann sagðist binda miklar vonir við að innihald skýrslunnar yrði að veruleika og vonaðist eftir því að geta nýtt sér þær tillögur sem stefnt væri á að breyta en yrði stoltur af því að vera hluti af breytingunum ef hann næði því ekki sjálfur. 

Eygló Fanndal talaði sérstaklega um að fjárstuðningurinn og Afreksmiðstöðin væru mikilvæg, sem og aðstoð við tilfærslur í námi þar sem keppnir fara ekki alltaf vel saman við tímasetningar prófa og verkefnaskila. Einnig væri mikilvægt fyrir íþróttafólk, sem æfði árum saman að geta unnið sér inn ýmis réttindi að ferli loknum, s.s lífeyrisréttindi, sem eru í dag engin og þakkaði hún því að eiga gott bakland svo hún gæti stundað sína íþrótt án verulegra fjárhagsáhyggja.

Myndir með frétt