Stór tímamót við kynningu á skýrslu starfshópsins
Óhætt er að segja að um stór tímamót hafi verið að ræða þriðjudaginn 30. apríl sl., þegar skýrsla starfshóps um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks var kynnt við formlega athöfn í Laugardalshöll. Það var Vésteinn Hafsteinsson, Afreksstjóri ÍSI, sem kynnti innihald hennar, en hann hefur verið í forsvari fyrir starfshópinn og unnið að þessum málum á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins, samhliða starfi sínu sem Afreksstjóri ÍSÍ.
Í skýrslunni eru tillögur um hvernig stórefla megi með ýmsum hætti afreksíþróttastarf í landinu, styðja betur við afreksíþróttafólk, og efla tengsl milli skólakerfisins, íþróttafélaganna sem og sveitarfélaganna svo eitthvað sé nefnt.
Meðal tillagnanna er stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands, sem hugsuð er sem miðstöð íþróttafólksins, þar sem það getur náð betri árangri í sinni íþrótt með aðstoð sérfræðinga. Fjallað er um aukna þörf á stuðningi til sérsambanda og íþróttafólks í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ, þörfina á að stofna launasjóð afreksíþróttafólks, og mikilvægi þessi að stuðningur sveitarfélaga og atvinnulífs við afreksíþróttir og afreksstarf verði aukinn. Þá er talið mikilvægt að efla tengsl íþróttastarfsins við skólakerfið og sveitarfélögin til að geta sinnt betur yngri iðkendum og unnið gegn brottfalli úr íþróttum á unglingsaldri. Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.
„Ég kom hingað heim til Íslands eftir að ég hætti í þjálfun, til að láta gott af mér leiða og það hefur verið ánægjulegt að fá að taka þátt í þessu starfi. Hingað erum við komin í dag, til að kynna þessa skýrslu. Við eigum að hætta að miða okkur við árangur eftir höfðatölu og vera sátt með hann og segja frekar að við ætlum okkur að verða best í heimi. Við höfum allt sem þarf til þess að verða best í heimi og það mun bara taka tíu ár“ sagði Vésteinn Hafsteinsson, við þetta tilefni.
Þrír ráðherrar voru mættir til að ræða efni skýrslunnar og næstu skref og óhætt er að segja að það séu stór tímamót að hluti ríkistjórnarinnar hafi mætt á kynninguna til að leggja þessu mikilvæga málefni lið. Það voru þeir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra en hans ráðuneyti skipaði starfshópinn og stóð fyrir kynningu skýrslunnar. Ásmundur Einar talaði um að vinna þyrfti hratt í þessum málum og yrði næsta skref að skipa þverpólítískan hóp til að vinna að þingsályktunartillögu um aðgerðir og þyrfti sá hópur að skila af sér fyrir 15. ágúst nk. og innleiðing aðgerða þyrfti að byrja 1. janúar 2025.
Það er óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan í íslensku íþróttalífi!
Starfshópinn skipuðu:
- Vésteinn Hafsteinsson, formaður, án tilnefningar
- Hildur Ýr Þórðardóttir, án tilnefningar
- Örvar Ólafsson, án tilnefningar
- Eva Margrét Kristinsdóttir, tilnefnd af félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
- María Sæm Bjarkardóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti
- Knútur G. Hauksson, tilnefndur af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands
- Kristín Birna Ólafsdóttir, tilnefnd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands
- Erlingur Jóhannsson, tilnefndur af Íþróttanefnd ríkisins
- Steinþór Einarsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
- Guðmunda Ólafsdóttir, tilnefnd af Ungmennafélagi Íslands