Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ólympíuhlaup ÍSÍ var sett í Borgarhólsskóla á Húsavík

05.09.2024

 

Ólympíuhlaup ÍSÍ 2024 var sett í Borgarhólsskóla á Húsavík í dag, í sól en þó nokkrum vindi. Allir 300 nemendur skólans hlupu og stóðu sig virkilega vel. Íþróttakennarar skólans höfðu afmarkað eins kíómeters hring og höfðu nemendur eina klukkustund til að hlaupa eins marga hringi og þeir treystu sér til. Þeir allra hörðustu náðu að klára 13 hringi.  

Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna, mætti á svæðið og hvatti nemendur til dáða á sinn skemmtilega hátt.  Íþróttakennarar skólans tóku á móti gjöf frá ÍSÍ sem innihélt bolta og útidót fyrir nemendur.  Að hlaupi loknu var nemendum boðið upp á kókómjólk í boði Mjólkursamsölunnar.

Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða þrír þátttökuskólar, sem ljúka hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ, dregnir úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 150.000 króna inneign í Altis, en  Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 10. október geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2024.

Gunnhildur Hinriksdóttir framkvæmdastýra HSÞ heilsaði upp á starfsfólk ÍSÍ og hvatti nemendur.  

Eftir hlaupið sá Birgir Sverrisson framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands um fræðslu um orkudrykki, samfélagsmiðla og líkamsímynd fyrir nemendur í 8.-10. bekk skólans. 


ÍSÍ þakkar nemendum fyrir þátttökuna og starfsliði skólans fyrir þeirra framlag, samstarf og jákvæðni. Að lokum hvetur ÍSÍ alla grunnskóla til að taka þátt.

Myndir með frétt