Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
27

Norrænn fundur um fyrirtækjaíþróttir

17.09.2024

 

Norrænir fulltrúar þeirra sambanda sem sjá um fyrirtækjaíþróttir funduðu saman í Seinajoki í Finnlandi 12. – 15. september sl. Á Norðurlöndunum eru sér íþróttasambönd um fyrirtækjaíþróttir en á Íslandi falla fyrirtækjaíþróttir undir Fræðslu- og almenningsíþróttasvið Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Verkefni hjá ÍSÍ sem hafa höfðað sérstaklega til fyrirtækja eru Lífshlaupið, sem í gangi er í febrúar, og Hjólað í vinnuna, sem er í maí.

Þrír starfsmenn á vegum ÍSÍ fóru út á að þessu sinni sem fulltrúar Íslands. Það voru Linda Laufdal, sérfræðingur á Fræðslu- og almenningssviði ÍSÍ, og Ásgerður Guðmundsdóttir og Margrét Regína Grétarsdóttir, verkefnastjórar Bjarts lífsstíls. Á fundinum kynnti Linda bæði ÍSÍ og þau verkefni sem snúa að hennar sviði en Ásgerður og Margrét Regína kynntu stöðu verkefnisins Bjart Lífstíls, heilsueflingar borgara 60 ára og eldri, og fóru þær yfir núverandi stöðu og framtíðaráform. Verkefnið Bjartur lífstíll var fyrst kynnt á fundi í Noregi árið 2022. Aðrir þátttakendur kynntu einnig sín verkefni en auk þess var fundað um hvort hægt væri að koma á sameiginlegu verkefni í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið. Þá kynnti Danska fyrirtækjasambandið (Dansk Firmaidræt) Heimsleika fyrirtækjaíþrótta (World Company Sport Games) en þeir verða haldnir í Fredrikshavn í Danmörku 10.– 14. júní 2026. Markmið með leikunum er að fá sem flest fyrirtækjalið frá Skandinavíu til að taka þátt í leikunum í hinum ýmsu íþróttum. ÍSÍ hvetur öll fyrirtæki til að kynna sér vel þessa leikana og skrá sem flest lið til keppni. Hér má finna upplýsingar um leikana.

Fundargestir fengu einnig að skoða Kuortane Sport Institute, sem er afreksíþróttamiðstöð og íþróttaskóli með heimavist. Ár hvert útskrifar skólinn íþróttaþjálfara, íþróttanuddara og ráðgjafa. Afreksíþróttamiðstöðin er einnig nýtt til að taka á móti gestum og halda ráðstefnur á Kuortane Sport Resort.

Það kom a.m.k. einn fulltrúi frá öllum Norðurlöndunum á fundinum og voru allir sammála um mikilvægi þess að hittast reglulega og upplýsa hvert annað um þau verkefni sem þau væru að vinna í sem og úrræðin, þar sem margt er hægt að læra hvert af öðru og færa þekkinguna á milli landa.

Á meðfylgjandi myndum má sjá annars vegar alla þátttakendurnir á fundinum á myndinni af hópnum í markinu og hins vegar fulltrúa Íslands, Margréti Regínu til vinstri, Ásgerði í miðjunni og Lindu Laufdal til hægri. 
Myndir/Linda Laufdal. 

Myndir með frétt