Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Íþróttavika Evrópu í fullum gangi og viðburðir aldrei verið fleiri

26.09.2024

 

Íþróttavika Evrópu er í fullum gangi en fjórði dagurinn af sjö fór af stað í morgun. Dagskráin hefur hingað til verið hlaðin af skemmtilegum viðburðum, keppnum og líflegum uppákomum um allt land, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi! Má þar nefna sundlaugazumba, borðtennis- og fótboltaspilskeppni, útihlaup, ketilbjöllukennslu, sippkeppnir, náttúrugöngu, jóga og margt fleira. Þá hafa margir aðilar, til að mynda sveitafélögin, boðið upp á ýmsa fræðslu, svo sem fyrirlestur um betri svefn, næringu, bætta líðan á efri árum og fleira.

Menntaskólarnir hafa virkilega nýtt Íþróttavikuna til að bjóða nemendum upp á ýmsa skemmtilega hreyfingu og má nefna að Menntaskólinn á Ísafirði, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Menntaskólinn við Sund, Menntaskólinn á Akureyri og fleiri skólar hafa boðið upp á metnaðarfullar dagskrár á hverjum degi alla vikuna, ýmist í frímínútum eða yfir daginn. Sveitafélögin hafa ekki heldur látið sitt eftir liggja og má segja að aldrei hafi viðburðirnir verið fleiri.

Inn á BeActive.is er hægt að finna allar upplýsingar um verkefnið og flesta af þeim viðburðum sem búið er að skipuleggja. Af nægu er að taka um helgina.
Inn á Facebook síðu ÍSÍ má finna fjölda viðburða sem búið er að tengja við ÍSÍ undir "mentions" og geta áhugasamir skoðað þar hvað í boði er.

ÍSÍ hvetur alla áhugasama til að vera með og taka þátt í Íþróttaviku Evrópu, áður en henni lýkur á sunnudag, 30. september.
Einkunnarorðin í ár eru: Inclusion (inngilding), well-being (vellíðan) og belonging (tilheyra). 

Það er alltaf tími fyrir hreyfingu! Íþróttir eru fyrir okkur öll!

 

Myndir með frétt