Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Forvarnardagurinn 2024 er á morgun 2. október

01.10.2024

 

Á morgun, miðvikudaginn 2. október verður Forvarnardagurinn 2024 settur í 19. sinn með málþingi í Inngunnarskóla í Grafarvogi. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er sjónum beint sérstaklega að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Yfirskrift Forvarnardagsins er Hugum að verndandi þáttum og vellíðan í lífi barna og ungmenna með kærleik! 

Málþing Forvarnardagsins hefst kl.10.00 og verður streymt fyrir almenning, en streymið kemur inn á morgun á vef Forvarnardagsins.

Dagskrá málþings:
Skólastjóri býður gesti velkomna
Fundarstjórn – Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs Embættis landlæknis

Til máls taka:
• Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir
• Landlæknir, Alma D. Möller
• Formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson
• Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth: Ekkert um ykkur án ykkar
• Rödd ungmenna: Ernir Daði Arnbergz Sigurðsson og Karen Hulda Finnsdóttir fulltrúar úr ungmennaráði UMFÍ
 
Fjölmiðlar eru hvattir til að mæta á staðinn og fá tækifæri til að taka viðtöl við ungmenni, sem klár eru til að veita viðtöl, og annað framsögufólk, sem verður á staðnum.

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli. 

Um Forvarnardaginn:
Verkefni Forvarnardagsins hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum. Skólar fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan. Rannsóknir hafa sýnt að samvera með fjölskyldunni, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir áhættuhegðun. Nemendur nýta þetta efni svo til umræðu í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar um hvað veitir þeim vellíðan og hefur áhrif á góða heilsuhegðun, um samskipti og samveru með foreldrum og fjölskyldu, áhrif félagsþrýstings o.fl. Einnig ræða nemendur í framhaldsskólum um þá ákvörðun að drekka ekki eða seinka því að byrja að drekka áfengi og hvaða þættir hafa áhrif á þá ákvörðun.

Nemendum í þátttökuskólum (9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla) býðst að taka þátt í verðlaunaleik en nánari upplýsingar um leikinn verða aðgengilegar á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is 2. október. Forseti Íslands afhendir verðlaun við hátíðlega athöfn á 
Bessastöðum síðar á árinu.

Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth margret@planetyouth.org (851 1110).
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Forvarnardagsins og Heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla
hjá Embætti landlæknis ingibjorg.gudmundsdottir@landlaeknir.is
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs Embættis landlæknis dora.g.gudmundsdottir@landlaeknir.is