Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Fundur norrænna íþrótta- og Ólympíusamtaka haldinn í Kaupmannahöfn

07.10.2024

 

Nordic Sports Meeting, fundur norrænna íþrótta- og Ólympíusamtaka, fór fram í Kaupmannahöfn dagana 19. og 20. september sl. Fundinn sóttu af hálfu ÍSÍ Lárus L. Blöndal forseti, Þórey Edda Elísdóttir 1. varaforseti, Olga Bjarnadóttir 2. varaforseti, Hörður Þorsteinsson gjaldkeri, Líney Rut Halldórsdóttir ráðgjafi, Andri Stefánsson framkvæmdastjóri og Halla Kjartansdóttir sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs ÍSÍ. Fulltrúar frá íþróttasamtökum fatlaðra í norrænu löndunum voru þátttakendur í hluta af fundinum og funduðu einnig samhliða norræna fundinum. Fulltrúar Íslands af hálfu Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) voru Þórður Árni Hjaltested formaður og Ólafur S. Magnússon framkvæmdastjóri. Kári Mímisson meðlimur í framkvæmdastjórn ÍSÍ og formaður Íþróttamannanefndar ÍSÍ sótti fund norrænna Íþróttamannanefnda sem haldinn var á sama tíma í Kaupmannahöfn.

Á fundinum var farið yfir nýafstaðna Ólympíuleika í París og stöðu íþróttafólks frá Rússlandi og Belarús. Norrænu þjóðirnar standa við áður útgefna yfirlýsingu sína varðandi þátttöku þessara þjóða í alþjóðakeppni enda hefur ekkert breyst hvað varðar stríðið um Úkraínu. 
Inn á fundinn komu fulltrúar Íþróttamannanefnda landanna og ræddu sín hagsmunamál. Rætt var um möguleika Norðurlandanna á því að verða gestgjafaþjóðir Ólympískra verkefna, sjálfbærni og norrænt samstarf um málaflokkinn og mannréttindi í tengslum við alþjóðaviðburði íþrótta. Líney Rut hélt erindi um helstu áherslur stjórnar Samtaka evrópskra Ólympíunefnda (EOC) en hún er meðlimur í framkvæmdastjórn samtakanna. Rætt var um áhrif norrænna þjóða á alþjóðlegt umhverfi íþrótta og var farið yfir stöðuna með hliðsjón af mælikvarða Danska íþrótta- og Ólympíusambandsins sem ber heitið Sports Political Power Index.
Forseti EOC, Spyros Capralos og Jan Lehmann framkvæmdastjóri (CEO) samtakanna komu inn á fundinn og ræddu áherslur og stefnu EOC til ársins 2030. Þeir buðu upp á umræður um fundarefnin og skapaðist gott tækifæri fyrir viðstadda að ræða opinskátt um sameiginleg hagsmunamál norrænu þjóðanna.

Næsti Nordic Sports Meeting verður haldinn í Helsinki í Finnlandi 11. – 12. september 2025.

Myndir með frétt