EOC Seminar 2024
44. EOC Seminar fór fram í Budva í Svartfjallalandi dagana 27. og 28. september sl. Andri Stefánsson framkvæmdastjóri, Líney Rut Halldórsdóttir ráðgjafi og meðstjórnandi í EOC og Kári Steinn Reynisson rekstrarstjóri sóttu viðburðinn af hálfu ÍSÍ.
Fundurinn, sem haldinn er árlega, er vettvangur umræðna um þau helstu hagsmunamál Ólympíunefnda í Evrópu. Meðal annars var farið yfir Ólympíuleikana í París, sem tókust afar vel að flestra mati. Kynntar voru Ólympíuhátíðir Evrópuæskunnar sem fram fara á næsta ári. Vetrarólympíuhátíðin verður í Bakuriani í Georgíu í febrúar og Sumarólympíuhátíðin verður í Skopje í Norður-Makedóníu næsta sumar. ÍSÍ mun senda þátttakendur á báðar hátíðirnar.
Að þessu sinni voru tvö meginþemu á fundinum, þ.e. sjálfbærnimál og gervigreind. Málþing um gervigreind var leitt af sérfræðingum frá Alþjóðaólympíunefndinni, Deloitte og Alibaba. Helsti fókusinn var settur á það hvernig gervigreindin getur helst orðið hreyfingunni að mestu gagni og fyrstu skrefin varðandi notkun. Á málþingi um sjálfbærni var rætt um nálgun Alþjóðaólympíunefndarinnar á málaflokkinn og einnig var kynnt hvernig Alþjóðaskíðaskotfimisambandið (IBU) hefur innleitt sjálfbærni í starfsemi sína.