Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Brokey er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

06.12.2024

 

Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á árshátíð félagsins fimmtudaginn 5. desember síðastliðinn. Handbók félagsins þessu tengdu var afar vel unnin ásamt fylgigögnum.  Það var Jón Reynir Reynisson, starfsmaður á Stjórnsýslusviði ÍSÍ, sem afhenti Gunnari Sigurðssyni, formanni félagsins, viðurkenninguna.

„Við hjá Brokey erum afar stolt af því að hafa hlotið viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, viðurkenningu sem er miklu meira en bara heiðursmerki. Þetta er mikilvæg staðfesting á þeirri vegferð sem félag okkar hefur farið, þar sem fagmennska, öryggi og stöðug þróun eru í fyrirrúmi. Árangur okkar er sameiginlegt afrek allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóg - starfsmanna, stjórnarmeðlima, iðkenda, foreldra, styrktaraðila og sjálfboðaliða sem hafa byggt upp öflugt félag með hugsjón og þrautseigju. Handbók okkar er hornsteinn í starfseminni og lifandi sönnun þess árangurs sem við höfum náð í gegnum árin. Hún er ekki aðeins skjal heldur lifandi verkfæri sem á að tryggja samfellu, fagmennsku og skýra stefnu í öllu okkar starfi. Þakklæti okkar til ÍSÍ er ómetanlegt. Þeirra stuðningur og leiðsögn hefur verið okkur mikilvægur í þessari vegferð. Með útgáfu leiðbeininga, handbóka og ráðgjöf hafa þeir ekki aðeins styrkt okkur, heldur einnig heilu íþróttahreyfinguna. Verkefnið „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ" er frábært framtak sem hvetur félög til stöðugra umbóta og fagmennsku. Við hjá Brokey erum full tilhlökkunar og einbeitts vilja til að halda áfram að þróast, læra og skapa jákvætt og öflugt íþróttasamfélag. Viðurkenningin sem við höfum hlotið er ekki endapunktur, heldur upphafið að nýjum spennandi kafla í sögu félagsins“ sagði Gunnar Sigurðsson formaður félagsins af þessu tilefni.  

Á myndunum eru annars vegar Gunnar og Jón Reynir með viðurkenninguna á milli sín og hins vegar þeir tveir lengst til hægri ásamt félagsmönnum/iðkendum í Brokey. 

Viltu vita meira um Fyrirmyndarfélög ÍSÍ? Smelltu hér!

Myndir með frétt