Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Verðlaunaafhending Íþróttaviku Evrópu í Brussel

11.12.2024

 

Þann 26. nóvember síðastliðinn fór fram verðlaunaafhending í tengslum við Íþróttaviku Evrópu, sem haldin var í Brussel í Belgíu, og kallast á ensku #BeActive Awards. Íþróttavika Evrópu er haldin ár hvert um alla álfuna vikuna 23. – 30. september. Tveir starfsmenn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fóru út fyrir hönd ÍSÍ, þær Margrét Regína Grétarsdóttir og Ragnhildur Skúladóttir, frá Fræðslu- og almenningsíþróttasviði ÍSÍ.

Verðlaunaafhendingin #BeActive Awards er árlegur viðburður þar sem verðlaun eru veitt fyrir framúrskarandi verkefni sem efla íþróttir og hreyfingu í Evrópu. Sjá nánar um verkefnin sem hlutu verðlaun, hér.

Daginn eftir var haldinn samantektarfundur, auk kynninga, á Íþróttaviku Evrópu árið 2024 en sá fundur var fyrir alla tengiliði verkefnisins, frá meira en 30 Evrópulöndum, sem tóku þátt í Íþróttaviku Evrópu í september síðastliðnum.


Frá árinu 2015 hefur ÍSÍ haldið utan um verkefnið á Íslandi með styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið. Þátttaka hefur aukist verulega seinustu ár en það sést bersýnilega þegar seinustu tvö ár eru borin saman. 

Árið 2023 tóku 11 milljónir manna þátt í um 34.000 viðburðum um alla Evrópu.
Árið 2024 tóku nærri 15 milljónir manna tóku þátt í yfir 50.000 viðburðum um alla Evrópu.
Í ár heppnaðist vikan afar vel á Íslandi og eru starfsmenn ÍSÍ vongóðir um að á næsta ári eigi þátttaka og áhugi landsmanna eftir að verða enn meiri í Íþróttaviku Evrópu. 

Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingaleysi meðal almennings. Nánar um Íþróttaviku Evrópu hér.

Á meðfylgjandi myndum má sjá annars vegar frá #BeActive Awards viðburðinum og hins vegar fulltrúa Íslands, Margréti Regínu til vinstri og Ragnhildi Skúladóttur til hægri.

Myndir með frétt