Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

6

Úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2025

30.12.2024

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2025, en úthlutun nemur alls 519,4 milljónum króna.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ er 392 m.kr. vegna verkefna ársins 2025, en framlagið hefur verið óbreytt frá árinu 2019. Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings ÍSÍ. 

Þann 22. nóvember sl. skrifaði ÍSÍ undir samning við mennta- og barnamálaráðuneytið þar sem fram kemur að framlag ráðuneytisins til ÍSÍ hækkar um 637 m.kr. árið 2025 frá fyrra ári vegna innleiðingar á nýju fyrirkomulagi afreksmála sem byggir á áherslum í skýrslu starfshóps um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Eru væntingar til þess að þetta nýja fjármagn verði fyrsta skrefið í að styrkja verulega umhverfi afreksíþróttastarfs á Íslandi. Verið er að vinna í skiptingu þessa nýja fjármagns miðað við þær áherslur sem koma fram í skýrslu starfshópsins og munu tillögur að skiptingu þess liggja fyrir snemma á nýju ári og stefnt að úthlutun viðbótarstuðnings til sérsambanda ÍSÍ strax í byrjun árs.

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 33 sérsamböndum vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna. 32 sérsambönd hljóta styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ við þessa úthlutun fyrir árið 2025.

Heildarkostnaður afreksstarfs hjá þeim sérsamböndum sem sóttu um til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2025 er áætlaður um 3,4 mia. kr. og er stuðningur sjóðsins um 15,1% af áætluðum heildarkostnaði afreksstarfs þeirra sérsambanda sem sóttu um.

Við úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna ársins 2025 var í annað sinn unnið eftir þeirri reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ sem samþykkt var í nóvember 2023 þar sem sérsamböndum er skipt í tvo afreksflokka, Afrekssérsambönd og Verkefnasérsambönd.

Við ákvörðun á styrkupphæðum til sérsambanda er horft til flokkunar þeirra í afreksflokka. Hljóta þau styrki vegna ákveðinna áhersluþátta eftir því hvaða flokki og þrepi þau tilheyra. Þannig hljóta sérsambönd styrk eftir fjölda stöðugilda í afreksstarfi, þátttöku og árangri fullorðinna og ungmenna í stórmótum, vegna hæfileikamótunar, heilbrigðisteymis og menntunar þjálfara og dómara. Að auki eru sérsamböndin styrkt vegna mögulegrar þátttöku á Ólympíuleikum og vegna framúrskarandi einstaklinga. Til viðbótar eru svo Afrekssérsambönd styrkt um hluta af ferðakostnaði þeirra í mót og keppnir þar sem styrkfjárhæð fer eftir stærð móta. 

Helstu breytingar á milli ára eru þær að við úthlutun vegna ársins 2025 er menntun dómara og þjálfara sérstaklega styrkt á ný en sérstakir styrkir vegna þessara afreksþátta höfðu verið veittir fram til ársins 2023 en felldir út árið 2024.

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) sendi inn umsókn til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna verkefna ársins 2025. Þrátt fyrir að KSÍ sé flokkað sem afrekssérsamband ÍSÍ og fer þar fremst í flokki á mörgum sviðum fær sambandið ekki styrk við þessa úthlutun. Er þar, líkt og síðustu ár, horft til fjárhagslegrar stöðu sérsambandsins og vísað til heimilda sem eru í reglugerð sjóðsins varðandi slíka ákvörðunartöku.

Hvað varðar úthlutun á því fjármagni sem enn á eftir að úthluta vegna ársins 2025 og byggir á nýjum áherslum í afreksstarfi, samkvæmt skýrslu fyrrnefnds starfshóps, er horft til þessu að KSÍ muni njóta stuðnings. Enn á þó eftir að útfæra frekari styrkveitingar vegna ársins.